Náttúruminjasafn Íslands tilnefnt til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022!

Náttúruminjasafnið er komið í úrslit í keppninni um Evrópsku safnaverðlaunin 2022, EMYA-2022!

Þetta er í fjórða sinn sem íslensku safni hlotnast þessi heiður Síldarminjasafnið á Siglufirði vann Evrópuverðlaun safna 2004 sem besta nýja iðnaðarsafn álfunnar; Þjóðminjasafn Íslands hlaut sérstaka viðurkenningu 2006 fyrir endurnýjaða grunnsýningu safnsins og á árinu 2008 var Minjasafn Reykjavíkur tilnefnt fyrir Landnámssýninguna Reykjavík 871±2 í Aðalstræti.

Vatnið í náttúru Íslands er sýning Náttúruminjasafnsins í Perlunni sem var opnuð 1. desember 2018. Ljósm. Vigfús Birgisson.

Í ár keppa 60 evrópsk söfn til úrslita í ýmsum flokkum sem verða kunngjörð í byrjun maí 2022. Evrópuráðið hefur þegar valið eitt safnanna Nano Nagle Place í Cork á Írlandi til verðlauna sem veitt eru safni sem sem leggur sérstaka áherslu á evrópsk sjónarmið og samspil staðbundinnar og evrópskrar sjálfsmyndar.  Það er menningarnefnd þingmannaráðsins (PACE) sem velur safn í þessum flokki en safnið er í 250 ára gömlu klaustri umgirt fallegum görðum. 

 

Sigurvegarar 2022 í öðrum flokkum verða tilkynntir á síðasta degi EMYA2022 hátíðarinnar sem fram fer í Tartu, Eistlandi 4. til 7. maí 2022. Náttúruminjasafnið er tilnefnt fyrir sýningu sína Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni en einnig fyrir framtíðarsýn safnsins.