Náttúruminjasafnið eignast stórmerkilegt steinasafn á Breiðdalsvík

Náttúruminjasafn Íslands undirbýr nú móttöku á einu stærsta og merkasta safni af holufyllingum og bergi í landinu – steinasafni Björns Björgvinssonar frá Höskuldsstaðaseli í Breiðdal. Safnkosturinn, sem er 10 til 15 þúsund eintök, samanstendur að grunni til af þremur steinasöfnum sem Björn eignaðist og forðaði frá glötun eða yrðu seld úr landi – steinasöfnum Reynis Reimarssonar og Kjartans Herbjörnssonar, sem báðir eru úr Breiðdal, og safni Svavars Guðmundssonar. Stærstur hluti steinanna er úr Breiðdal og nærliggjandi sveitum.

Meginmarkmið Náttúruminjasafnsins með móttöku steinasafns Björns er að tryggja heildstæða og faglega varðveislu á þessum merka hluta af náttúruarfi Íslands og nýta safnkostinn í fræðslu- og upplýsingaskyni fyrir almenning og fræðasamfélagið – og öðrum þræði til að styrkja innviði á Austfjörðum í tengslum við ferðaþjónustu.

Frá Höskuldsstaðaseli. Frá vinstri: Ómar Bjarki Smárason, jarðfræðingur, Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður, Madison Lin MacKenzie og Irma Gná Jóngeirsdóttir, jarðfræðingar.

Verkefnið hefur verið í deiglunni í rúm þrjú ár. Frumkvæði að aðkomu Náttúruminjasafnsins að verkefninu og dyggur hvatamaður þess er Ómar Bjarki Smárason jarðfræðingur og eigandi Stapa ehf. – jarðfræðistofu. Ómar Bjarki og Björn Björgvinsson voru frumkvöðlar að stofnun Breiðdalsseturs árið 2008 í gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík, en setrið er tileinkað enska eldfjallafræðingnum dr. Georg P.L. Walker (1926–2005) og málvísindamanninum Stefáni Einarssyni prófessor (1897–1972) sem ættaður var frá Höskuldsstöðum í Breiðdal. Vænst er góðrar samvinnu við Breiðdalssetur og fyrirhugað rannsóknasetur Háskóla Íslands þar um fræðslu og rannsóknir á safnkostinum.

Skriður komst á verkefnið í sumar þegar tveir jarðfræðingar á vegum Náttúruminjasafnsins, Irma Gná Jóngeirsdóttir og Madison Lin MacKenzie, unnu við fullnaðarskráningu og myndatöku á safnkostinum í Höskuldsstaðaseli. Starf jarðfræðinganna var að hluta til styrkt af átaki Vinnumálastofnunar um sumarstörf námsmanna vegna COVID-19 veirufaraldursins. Verkið gekk mjög vel og er ráðgert að ljúka skráningu og frágangi sýna næsta sumar.

Safnkosturinn verður varðveittur og hýstur til frambúðar í Breiðdal. Stefnt er að því að setja upp sýningu á Breiðdalsvík og er nú verið að athuga með húsnæði til sýningahaldsins í samráði við heimamenn.

Jarðfræðingarnir Irma Gná og Madison Lin við skráningarstörf.

Þess má geta að í safnkosti Björns er að finna stóreflis fægða granítsteina eftir Sigurð Guðmundsson, hinn kunna listamann sem er m.a. höfundur Eggjanna á Djúpavogi og Fjöruverksins við Sæbraut í Reykjavík. Sigurður hefur sýnt því mikinn áhuga að koma að uppsetningu hnullunganna á Breiðdalsvík.

Það er mikill fengur að því fyrir opinbera fræðslustofnun á borð við Náttúruminjasafnið og þar með ríkið að eignast safnkost sem þennan, sérstaklega þar sem hann hentar vel til sýningahalds og almenningsfræðslu. Þá er vísindalegt gildi safnkostsins afar mikið vegna óvenju ítarlegrar skráningar á fundarstað eintaka sem nýtist vel til rannsókna. Mörg sjaldgæf eintök hafa jafnframt mikið fágætisgildi og enn önnur eru undurfagrir skrautsteinar með mikið fagurfræðilegt gildi.

Stefnt er að því að opna sýningu um þennan merkilega safnkost Björns Björgvinssonar á Breiðdalsvík ekki síðar en sumarið 2022.