Opnun nýrrar sérsýningar

Náttúruminjasafn Íslands opnar sérsýninguna Rostungurinn 14. mars n.k. í Perlunni. Vegna COVID-19 faraldursins verður ekki boðið til opnunar sýningarinnar sem er opin alla daga milli kl. 9 og 22 og stendur til 8. nóvember 2020.

Nýleg rannsókn, sem Náttúruminjasafn Íslands átti frumkvæði að og vann með Háskóla Íslands, Fornleifafræðistofunni, Ævari Petersen, Háskólanum í Kaupmannahöfn og Háskólanum í Groningen, varpar alveg nýju ljósi á tilvist rostunga til forna við Ísland. Með C-14 aldursgreiningu og erfðagreiningu á beinaleifum rostunga frá Íslandi hefur í fyrsta skipti verið staðfest að hér á landi lifði sérstakur íslenskur rostungsstofn í nokkur þúsund ár, allt fram til 800–1200 e.Kr., þegar hann leið undir lok. Á sýningunni er þessum merkilegu niðurstöðum gerð skil og fléttað saman við umfjöllun um líffræði rostunga almennt og útbreiðslu í dag, sem og við nytjar af rostungum til forna og hugsanlegum þætti þeirra í landnámi Íslands.

Sýningin er unnin í samstarfi við m.a. Bjarna F. Einarsson fornleifafræðing, Bergsvein Birgisson bókmennta- og norrænufræðing og Snæbjörn Pálsson, prófessor og stofnerfðafræðing.  Sýningarhönnun: Visionis, Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir og Ingibjörg Jara Sigurðardóttir. Grafísk hönnun: Ingi Kristján Sigurmarsson.