Ritstjóraskipti á Náttúrufræðingnum
Ritstjóri kveður
Þau merku tímamót urðu nú í janúar að Álfheiður Ingadóttir lét af störfum sem ritstjóri Náttúrufræðingsins en því starfi gegndi hún alls í tæp 18 ár, fyrst 1996–2006 þegar Náttúrufræðistofnun Íslands hýsti starfsemi Hins íslenska náttúrufræðifélags og síðar 2014–2021, þegar Náttúruminjasafns Íslands gekk til liðs við félagið um sameiginlega útgáfu tímaritsins. Frá 2014 hefur útgáfa Náttúrufræðingsins verið kostuð til helminga af safninu og félaginu. Þá hefur ritstjórinn ásamt stjórn félagsins og ritstjórn tímaritsins haft aðsetur í húsakynnum Náttúruminjasafnsins.
Álfheiður á miklar þakkir skilið fyrir ötula ritstjórn, ósérhlífni, fagmennsku og smekkvísi við ritstjórn tímaritsins. Nýútkomið tvöfalt 3.–4. hefti í 91. árgangi, það síðasta sem Áflheiður ritstýrði, ber vinnubrögðum Álfheiðar skýrt vitni – tímaritið inniheldur að venju áhugaverðar ritrýndar greinar um fjölbreytta náttúru Íslands, er ríkulega myndskreytt og í hvívetna vandað til máls og frágangs. Við eigum Álfheiði mikið að þakka í menningarlegu tilliti – að stuðla að og standa vörð um einkar vandaða miðlun um náttúru landsins og íslenska tungu sem ætluð er almenningi til fróðleiks og upplýsingar. Enda þótt Álfheiður láti af starfi ritstjóra Náttúrufræðingsins verður hún Náttúruminjasafninu áfram um tíma innan handar um eitt og annað sem viðkemur ritstjórn og útgáfumálum.
Nýr ritstjóri tekur við
Gengið hefur verið frá ráðningu nýs ritstjóra Náttúrufræðingsins en starfið var auglýst laust til umsóknar í nóvember 2021 og rann umsóknarfrestur út 15. desember s.l. Alls bárust sex umsóknir um starfið og var það einróma niðurstaða að ráða Margréti Rósu Jochumsdóttur sem nýjan ritstjóra Náttúrufræðingsins.
Margrét hefur BA gráðu í sagnfræði með landafræði sem aukagrein og meistaragráðu í annars vegar þróunarfræðum og hins vegar hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Þá hefur hún víðtæka reynslu í ritstjórn og útgáfu sem og vefumsjón. Margrét mun sjá um prentútgáfu tímaritsins og nýja vefútgáfu tímaritsins, sem áætlað er að opna á aðalfundi félagsins 28. febrúar n.k. Margrét er boðin velkomin til starfa á nýjum vettvangi.