Rostungurinn á Hvammstanga

Sérsýning Náttúruminjasafns Íslands um rostunga hefur verið flutt norður á Hvammstanga þar sem hún var opnuð með pomp og prakt á Selasetri Íslands síðastliðinn föstudag. Rostungar eru nú aðeins flækingar við strendur Íslands, sjást hér endrum og eins, og vekja alla jafna mikla athygli.

Nýleg rannsókn, sem Náttúruminjasafn Íslands átti frumkvæði að og vann með fleiri vísindastofnunum, varpar hins vegar nýju ljósi á tilvist rostunga til forna við Ísland. Rannsóknin staðfestir að á Íslandi lifði sérstakur íslenskur rostungsstofn í árþúsundir sem varð útdauður á tímabilinu 800–1200 e.Kr.

Páll L. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands
Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, og Guðmundur Jóhannesson, stjórnarformaður Selaseturs Íslands

Á sýningunni er þessum merkilegu niðurstöðum gerð skil og fléttað saman við umfjöllun um líffræði rostunga almennt og útbreiðslu í dag, sem og við nytjar af rostungum til forna og hugsanlegum þætti þeirra í landnáminu.

Sýningin var fyrst sett upp í Dropanum, sérsýningarrými Náttúruminjasafnsins í Perlunni, en hún var upphaflega hönnuð með það í huga að verða síðar flutt og sett upp úti á landi. Við á Náttúruminjasafninu þökkum Selasetri Íslands, og sérstaklega Páli L. Sigurðssyni framkvæmdastjóra, fyrir að taka vel á móti sýningunni og okkur. Við getum vart hugsað okkur meira viðeigandi staðsetningu fyrir sýningu um hinn forna íslenska rostungastofn.