Safnaþrennan: Fjársjóðir höfuðsafnanna – samfélag, listir og náttúra

Hvernig er hægt að vekja áhuga ungs fólks á samfélagi, listum og náttúru í gegnum söfn? Hvernig má nýta safnheimsóknir til að hvetja nemendur til sjálfstæðra vinnubragða og túlkunar?

 

Safnkennarar höfuðsafnanna þriggja og kennari menningarlæsis í Tækniskólanum tóku höndum saman um að móta námsleið með það að markmiði að efla náttúru- og menningarlæsi. Verkefnið var prufukeyrt undir vinnuheitinu Safnaþrennan í janúar og febrúar 2023 með um 15 nemendum. Markmið áfangans var að efla náttúru- og menningarlæsi, gagnrýna hugsun og sjálfstæði nemenda til þess að nýta höfuðsöfnin sem námsvettvang með skapandi úrvinnslu.

Safnkennarar tóku saman hugtakalista sem tengja geta sýningar safnanna þriggja, til dæmis: Spor, eldvirkni, mynstur, jarðvegur, hið ósýnilega og rætur. Þannig gátu nemendur farið á milli og leitað sér svara við rannsóknarefni sínu út frá sama hugtakinu á öllum söfnunum. Mikið var lagt upp úr nemendasjálfstæði, verkefnið átti að vera persónuleg umfjöllun, tenging við upplifun og skilning.

Að leggja af stað án þess að vita hver niðurstaðan verður, er skapandi hugsun, bæði fyrir nemendur og kennara. Niðurstöður eftir áfangann voru afgerandi en mikill meirihluti nemendanna þótti verkefnavinnan skemmtileg, fjölbreytt og áhugaverð. Flestir ætluðu að heimsækja safn aftur fljótlega.

Afurð þessa samstarfs er ný fræðsluleið höfuðsafnanna þriggja fyrir framhaldsskóla. Kennarar geta fengið frekari upplýsingar og bókað fræðsluleiðina með því að hafa samband við safnkennara á kennsla@nmsi.is

Nemendur í áfanga í menningarlæsi við Tækniskólann kynna verkefni þar sem þeir tengdu saman söfnin þrjú.

Skipuleggjendur verkefnisins að lokinni kynningu á söfnunum í Tækniskólanum: Jóhanna Bergmann, Ragnhildur Guðmundsdóttir, Helga Aradóttir, Ragnheiður Vignisdóttir og Kolbrún Kolbeinsdóttir