Samstarf Háskólans á Hólum og Náttúruminjasafns Íslands

Hólmfríður Sveinsdóttir rektor Háskólans á Hólum og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands undirrituðu 31. janúar síðastliðinn rammasamkomulag um samstarf stofnananna um rannsóknir og miðlun á sviði náttúrufræða. Markmið samkomulagsins er að efla samstarf fræðimanna og nemenda á vegum stofnananna um rannsóknir og miðlun á fræðasviðum sínum.

Stofnanirnar hafa átt í nánu og gjöfulu samstarfi um árabil, en fyrri samstarfssamningur stofnanna var undirritaður haustið 2014. Það var jafnframt fyrsti samstarfssamningurinn sem Náttúruminjasafnið stóð að við aðra rannsókna- og menntastofnun síðan safnið var sett á laggirnar árið 2007.

Í viðauka með nýja rammasamkomulaginu er að finna nánari útfærslu á fyrirkomulagi og efnistökum í sérstöku samstarfsverkefni sem stofnanirnar hafa unnið að undanfarin ár.

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, og Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, undirrita rammasamkomulagið.

Þar er um að ræða rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi og nýtingu afraksturs þeirra rannsókna til miðlunar, jafnt til almennings, fræðasamfélagsins og stjórnsýslunnar. Fyrir þessum rannsóknunum fer dr. Skúli Skúlason prófessor við Háskólann á Hólum og sérfræðingur hjá Náttúruminjasafninu og deila stofnanirnar tvær með sér til helminga launa- og skrifstofukostnaði vegna starfa Skúla.

Á meðal afurða verkefnisins um líffræðilega fjölbreytni er uppbygging samráðsvettvangsins BIODICE (biodice.is), sem er vettvangur á fjórða hundrað einstaklinga, stofnana og fyrirtækja sem láta sig varða málefni líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Meginmarkmið BIODICE vettvangsins er að efla þekkingu og skilning á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi.

Rannsóknir, verndun og miðlun á líffræðilegri fjölbreytni eru með brýnustu viðfangsefna mannkyns nú á tímum og varðar sjálfbæra framtíð og farsæld komandi kynslóða. Viðfangsefnið fellur vel að starfsemi og  stefnum Háskólans á Hólum og Náttúruminjasafnsins og við báðar stofnanir starfa sérfræðingar sem búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu á sviði líffræðilegrar fjölbreytni, jafnt hvað varðar rannsóknir sem miðlun.

„Þetta rammasamkomulag við Háskólann á Hólum er afar ánægjulegt og mjög mikilvægt fyrir Náttúruminjasafnið, ekki síst með hliðsjón af starfsemi safnsins og framtíðaraðstöðu í nýju höfuðstöðvunum á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsinu i Nesi, sem stefnt er að opna haustið 2025.“ segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins. „Meginþema grunnsýningarinnar í Náttúruhúsinu mun snúast um hafið þar sem líffræðileg fjölbreytni sjávarlífríkis verður í aðalhlutverki. Í Náttúruhúsinu verður öll aðstaða til að miðla og fræða um fjölbreytileika náttúru Íslands með því besta sem völ er á. Þar með rætist einn þátturinn í stefnu stjórnvalda um líffræðilega fjölbreytni, nefnilega sá að Náttúruminjasafn Íslands skuli gegna lykilhlutverki í fræðslu um lífríki landsins þegar safnið eignast eigin aðstöðu og húsnæði undir starfsemi sína.“ segir Hilmar J. Malmquist.

Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum tekur í sama streng og segir “Rammasamkomulagið er afar mikilvægt fyrir Háskólann á Hólum. Skólinn fer fyrir verkefni þar sem markmiðið er að þróa nám og rannsóknir í sjálfbæru lagareldi á háskólastigi og verður  m.a. líffræðilegur fjölbreytileiki eitt af áhersluþáttum í bæði náminu og rannsóknunum. Ásamt opinberu háskólunum, Háskólasetri Vestfjarða, Matís og Hafró er Náttúruminjasafn Íslands einn af samstarfsaðilum í verkefninu”. Í undirbúningi er uppbygging á hátækni kennslu- og rannsóknahúsnæði í lagareldi við Háskólann á Hólum. „Í þessu nýja húsnæði verður miðlun rannsókna tengd sjávar- og vatnalíffræði ásamt lagareldi gerð góð skil í sérstöku sýningarrými og í því sambandi mun samstarfið við Náttúruminjasafnið vera afar verðmætt.” segir Hólmfríður.