Samstarf milli Náttúruminjasafnsins og Stofnunar Árna Magnússonar

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands og Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum undirrituðu föstudaginn 1. september síðastliðinn rammasamkomulag um samstarf stofnananna á sviði rannsókna og miðlunar. Markmið samkomulagsins er að stuðla að samstarfi og samlegð um rannsóknir og miðlun á náttúru- og menningararfi Íslands og með því móti tryggja varðveislu og aðgengi að arfinum til heilla fyrir land og þjóð. Öðrum þræði er efnt til samstarfsins í því augnamiði að brjóta niður múra milli fræðasviða og skapa deiglu nýsköpunar.

Samkomulagið tekur m.a. til sameiginlegra rannsókna og miðlunar, jafnt með sýningahaldi og útgáfu, og til gagnkvæmra nota starfsmanna á aðstöðu til fræðistarfa. Þá eru í samkomulaginu ákvæði sem snúa að samstarfi um einstök, afmörkuð rannsóknaverkefni, fjármögnun þeirra og miðlun.

Við undirritun rammasamkomulagsins var tækifærið nýtt til að ýta úr vör fyrsta rannsóknaverkefninu sem stofnanirnar eiga samstarf um en það snýst um rannsóknir á tveimur illa förnum hlutum af landakorti af Íslandi sem dregið var á skinn og Viðar Hreinsson sérfræðingur á Náttúruminjasafninu fann hvorn í sínu lagi árið 2015 og 2019 i Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Sterkar líkur eru taldar á að verkið sé eftir Jón Guðmundsson lærða (1574-1658). Í tilefni af fyrirhugaðri rannsókn á landakortshlutunum undirrituðu forstöðumennirnir erindi til Konunglega bókasafns Danmerkur í Kaupmannahöfn og Konunglega bókasafns Svíþjóðar í Stokkhólmi þar sem skinnhlutarnir með landakortinu fundust. Í rannsókninni verður nýjustu myndatækni beitt við skoðun skinnhlutanna og er vonast til að bregða megi skýru ljósi á gerð og eðli landakortshlutanna og staðfesta af hvaða svæðum landsins þeir eru (virðist vera af Norðvesturlandi og austurhluta landsins), sem og að varpa betra ljósi á framlag Jóns lærða til náttúrufræða hér á landi í stærra samhengi.

Við undirritun rammasamkomulags Náttúruminjasafnsins og Árnastofnunar.

Rammasamkomulagið við Stofnun Árna Magnússonar, sem er fyrsta samkomulagið sem undirritað er í Eddu, nýjum húsakynnum Árnastofnunar, er meðal nokkurra slíkra samstarfssamninga sem Náttúruminjasafnið hefur gert við aðrar stofnanir á undanförnum árum. Þar má nefna nýlegan samning við Vatnajökulsþjóðgarð, nýlega samninga við Náttúrufræðistofnun Íslands, systurstofnun Náttúruminjasafnsins, auk samninga við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands.