Samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Hafrannsóknastofnunar
Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands og Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna, innsigluðu rammasamkomulag um samstarf stofnananna 24. janúar síðastliðinn. Markmið samkomulagsins er að stuðla að samstarfi fræðimanna og nemenda á vegum stofnananna um rannsóknir og miðlun á fræðasviðum sínum.
Undirritun samkomulagsins er mikilvægur liður í að styrkja tengsl stofnananna sem er einkar mikilvægt fyrir Náttúruminjasafnið í því ljósi að nú er unnið hörðum höndum að gerð grunnsýningar í nýjum höfuðstöðvum safnsins á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsinu í Nesi, sem til stendur að opna um mitt ár 2025. Þema sýningar verður hafið, eðli þess og gerð, með áherslu á líffræðilega fjölbreytni og vistfræði og þær ógnir sem steðja að sjávarlífríkinu. Hin nýja aðstaða mun veita einstakt tækifæri varðandi miðlun og fræðslu á mikilvægi hafsins fyrir land og þjóð.
Samstarf stofnananna býður upp á mikil samlegðaráhrif á sviði vísinda, menntunar og menningar. Það er mikil tilhlökkun innan veggja Náttúruminjasafnsins á samstarfinu við Hafrannsóknastofnun sem býr að úrvalsþekkingu á málefnum hafsins og sjávarlífríkisins.
Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, og Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, undirrita rammasamkomulagið.
Hnúfubakur í Hafnarfjarðarhöfn tók á móti starfsmönnum Náttúruminjasafnsins í heimsókninni til Hafrannsóknastofnunar. Hvalurinn hringsólaði um höfnina, líklega í leit að smásíld að éta.