Samstarf við Grasagarðinn í Reykjavík
Á sýningu Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni, fræðumst við um margs konar birtingarmyndir ferksvatns á Íslandi. Vatnið er mikilvægt öllum lífverum, í lindum og ám, þar á meðal plöntum sem reiða sig á vatnið eins og aðrar lífverur. Þá leikur vatn um berg og jarðveg og tekur með því stóran þátt í að móta landið.
Á sýningunni má finna lifandi plöntur sem finnast í íslenskri náttúru í sérstökum gróðurkúlum. Lögð er áhersla á að skipta gróðrinum út eftir árstíðum til að sýna fjölbreytt úrval plantna sem er í blóma á hverjum tíma.
Síðastliðið haust gerðu Náttúruminjasafnið og Grasagarðurinn í Reykjavík með sér óformlegan samning um samstarf og kemur allur gróður á sýningunni frá Grasagarðinum. Fleira er á döfinni, þar með talið sameiginlegt viðburðahald og munu stofnanirnar halda saman viðburð á Degi hinna villtu blóma þann 16. júní.