Semjum frið við náttúruna

Semjum frið við við náttúruna er yfirskrift greinar eftir Skúla Skúlason, prófessor við Háskólann á Hólum og Náttúruminjasafn Íslands og Hilmar J.  Malmquist, forstöðumann Náttúruminjasafns Íslands sem birtist í Fréttablaðinu 25. mars. 

Hér fyrir neðan má lesa greinina.

Í febrúar sendi Um­hverfis­stofnun Sam­einuðu þjóðanna (UsSþ/ UNAP) frá sér tíma­móta­skýrslu sem ber heitið „Semjum frið við náttúruna“ (e. Making Peace with Nature). Þar er dregin upp afar dökk mynd af stöðu mála á jörðinni varðandi mengun, lofts­lags­breytingar og hrun líf­fræði­legrar fjöl­breytni, sem ekki sé hægt að lýsa öðru­vísi en að mann­kynið sé í stríði við náttúruna. Skýrslan bendir einnig skil­merki­lega á hvaða leiðir við höfum til að víkja af þessum vegi eyði­leggingar með mark­mið sjálf bærni að leiðar­ljósi. Mann­kynið geti breytt hegðun sinni í krafti þekkingar og skilnings. Mikil­vægast er að beina um­gengni okkar um náttúruna frá ríkjandi við­leitni til að um­breyta náttúrunni að því að um­breyta sam­bandi okkar við hana. Í þessu felst grunnurinn að því að bjarga náttúrunni og þar með mann­kyni frá bráðum háska.

Ljóst er að við lifum í sam­fé­lagi þar sem gjarnan er litið á manninn sem drottnara yfir náttúrunni og í raun að­skilinn frá henni. Þannig er okkur tamt að upp­hefja vits­muni okkar og beita þeim til að laga um­hverfið að okkar þörfum og hags­munum án mikils til­lits til annarra líf­vera og vist­kerfa. Í að­fara­orðum Inger Ander­son, for­stjóra UsSþ, í framan­greindri skýrslu leggur hún á­herslu á þá við­vörun sem Co­vid19 far­aldurinn er í þessu sam­bandi, en hann má beint og ó­beint rekja til ó­var­kárni í um­gengni við vist­kerfi jarðar. Undir­rót skaðans sem við höfum valdið á líf­fræði­legri fjöl­breytni og þar með vist­kerfum jarðar, er fólgin í hinni sjálf­sköpuðu sér­stöðu mannsins. En hvernig leggjum við grunninn að bráð­nauð­syn­legu og um­breyttu við­horfi til náttúrunnar og þar með bættum lífs­kjörum?

Lykillinn að svarinu liggur í orðum aðal­ritara Sam­einuðu þjóðanna, António Guter­res, í áður­nefndri skýrslu, þar sem hann segir að með því að um­breyta tengslum okkar við náttúruna munum við gera okkur grein fyrir hinu sanna gildi hennar. Hér er af­staða tekin með náttúrunni í heild og gildi hennar lögð til grund­vallar breyttu gildis­mati sem gengur gegn ríkjandi gildis­mati sem þjónar hags­munum mannsins ein­vörðungu og í raun og sann hefur snúist gegn honum. Þetta felur í sér að víkka við­tekna sið­fræði þannig að hún taki til sið­fræði náttúrunnar allrar: Öll mann­leg breytni verður að taka mið af náttúrunni í heild. Þörf þessa verður aug­ljós þegar við hugum að eðli og gerð vist­kerfa jarðar sem við erum ó­rjúfan­legur hluti af. Vist­kerfin endur­spegla nefni­lega þau gildi náttúrunnar sem hér um ræðir. Í krafti fjöl­breytni leggja vist­kerfin og tengsl milli ó­líkra vist­kerfa allt það til sem gerir líf­verum kleift að lifa og dafna. Þar má nefna eðlis- og efna­þætti eins og birtu, hita og vatn, sem og fæðu og bú­svæði. Þessi verð­mæti eru lífs­nauð­syn­leg mann­legri til­veru ekki síður en öðrum líf­verum, en við höfum í æ ríkari mæli misst sjónar á þeim með þeim al­var­legu af­leiðingum sem nú blasa við.

Hinn sið­ferði­legi þáttur snýst þá einkum um að líf­verur, þar með talinn maðurinn, finni taktinn í þeim f lóknu tengslum og sam­skiptum sem eiga sér stað í heil­brigðum vist­kerfum. Þessi taktur felst meðal annars í því að við hugum náið að upp­lifun okkar í náttúrunni og skynjum í víðri merkingu þau undir­stöðu­verð­mæti sem þar er að finna. Með öðrum orðum að við gaum­gæfum betur en við höfum gert til þessa þau gildi sem náttúran felur í sér. Hér hafa heim­spekingar og fræði­menn, eins og Aldo Leopold, Páll Skúla­son og fleiri, bent á mikil­vægi skapandi tengsla og auð­mýktar í lífs­máta og af­stöðu okkar til um­hverfisins. Full á­stæða er til að draga at­hygli les­enda að kenningum af þessu tagi.

Virðing, hóf­semi og skilningur á eðli og gerð vist­kerfa eru frum­for­sendur þess að skipu­leggja skyn­sam­lega um­gengni okkar í náttúrunni til fram­tíðar og í bar­áttunni við að­steðjandi ógnir. Þetta varðar af­stöðu hvers okkar, en stefna stjórn­valda, mennta­stofnana og fyrir­tækja er líka al­gjört grund­vallar­at­riði. Við þurfum að öðlast betri þekkingu og yfir­sýn yfir náttúruna, og stefnu­mótun um um­gengni okkar í henni þarf að vera skyn­sam­leg, skýr og heild­ræn. Þetta á ekki hvað síst við um náttúru Ís­lands, sem er til­tölu­lega lítt snortin og um margt mjög sér­stök, meðal annars hvað varðar upp­sprettu líf­fræði­legrar fjöl­breytni og eðli vist­kerfa. Líf­ríkið hér­lendis endur­speglar að miklu leyti hnatt­stöðu og land­fræði­lega ein­angrun eyjunnar á­samt ungum aldri og mikilli eld­virkni. Við erum þátt­tak­endur í stór­kost­legu gang­verki og fram­vindu, því náttúran er kvik og sí­breyti­leg eins og land­rek og kviku­hreyfingar undan­farið á Reykja­nes­skaga sýna glögg­lega.

Það er vissu­lega um­hverfis­vakning í ís­lensku sam­fé­lagi og viljinn til að breyta til hins betra er mikill. Hér hafa yngri kyn­slóðir gengið fram af krafti með lofs­verðum hætti og góð dæmi um það eru her­ferð Ungra um­hverfis­sinna í lofts­lags­málum og vinna Lands­sam­bands ung­menna­fé­laga að við­brögðum við hruni líf­fræði­legrar fjöl­breytni. Einnig eru mörg verk­efni í gangi bæði á vegum annarra fé­laga­sam­taka, hins opin­bera og ein­stak­linga, í því skyni að bregðast við um­hverfis­vánni. Mikil­vægt er að taka þátt og styðja góð verk­efni. Allar að­gerðir til björgunar, meðal annars þær sem tengjast efna­hags­og fram­leiðslu­kerfum okkar, hvíla á því að náttúru­auð­lindir séu nýttar með sjálf bærum hætti.

Við stöndum frammi fyrir afar stóru við­fangs­efni sem hvorki þolir bið né fálm­kenndar að­gerðir eða töfra­lausnir. Til að leggja grunn að betri fram­tíð er eina leiðin að breyta sam­bandi okkar við náttúruna, taka mál­stað hennar og leggja okkur fram um að skilja hana, virða og sýna henni auð­mýkt – og ein­fald­lega að taka þeim á­skorunum sem skýrsla Um­hverfis­stofnunar Sam­einuðu þjóðanna býður okkur að gera: Semja frið við náttúruna!