Sumarstörf fyrir námsmenn hjá Náttúruminjasafni Íslands og Háskólanum á Akureyri

Náttúruminjasafn Íslands og Háskólinn á Akureyri óska eftir sumarstarfsfólki í verkefnið Fjölbreytni örvera á Íslandi í gegnum linsuna. Verkefnið er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og er annars vegar óskað eftir nema í líffræði/líftækni og skyldum greinum og hins vegar nema í ljósmyndun/myndlist og skyldum greinum. Verkefnið gengur út á að setja fram myndefni og fræðslutexta um örverur í umhverfi okkar en markmiðið er að vekja athygli á þessum smáa en mikilvæga heimi örveranna. Verkefninu lýkur svo með ljósmyndasýningu í ágúst sem sett verður upp í húsakynnum Háskólans á Akureyri en sú sýning er hluti af Hátíð líffræðilegrar fjölbreytni sem BIODICE stendur fyrir. Gert er ráð fyrir að nemendur hefji störf eigi síðar en 1. júní. Nemendum verður gefinn kostur á að taka þátt í vettvangsferð í alþjóðlegu sumarnámskeiði í örveruvistfræði Norðurslóða sem fram fer 5.-10. júní.

Starfstöð verkefnisins er á Akureyri, í húsnæði Háskólans á Akureyri og er verkefnið samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri, BIODICE og Náttúruminjasafns Íslands.

Umsjónarmenn verkefnisins eru Oddur Þór Vilhelmsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, Ragnhildur Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Náttúruminjasafni Íslands og Helga Aradóttir, safnkennari hjá Náttúruminjasafni Íslands.

Umsóknarfrestur er til og með 25. apríl og skulu umsóknir ásamt ferilskrá sendast á ragnhildur.gudmundsdottir@nmsi.is.