10 sumarstörf í boði á Náttúruminjasafninu

Náttúruminjasafn Íslands auglýsir í samstarfi við Vinnumálastofnun eftir 15 námsmönnum til að sinna fjölbreyttum verkefnum í sumar. Störfin tengjast rannsóknavinnu safnsins og gagnaskráningu. Nokkur starfanna eru úti á landi og sumum má sinna í gegnum netið hvar sem er á landinu svo fremi að gott netsamband sé fyrir hendi.

Námsmenn á háskólastigi með viðeigandi menntun eru hvattir til að sækja um. Umsóknir fara í gegnum vef Vinnumálastofnunar.

 

Hér er skrá yfir verkefnin og störfin á Náttúruminjasafni Íslands sem auglýst eru:

Skráning á steinasafni, Breiðdalsvík.
Störfin felast í flokkun, skráningu og pökkun á steinasafni í eigu Náttúruminjasafns Íslands, ásamt öðrum tilfallandi störfum. Störfin eru á Breiðdalsvík og verður starfsmönnum séð fyrir húsnæði.
2 jarðfræðinemar.

Skráning muna.
Flokkun og skráning safnmuna í geymslu safnsins.
1 nemi í bókasafns- og upplýsingafræði.

Steinagreining. 
Rannsóknarverkefni sem felst í að greina hluta stórs safns steina af erlendum uppruna, sem borist hafa með ís til norðausturhluta Íslands á nútíma. Auk þess að safna saman heimildum og textum tengdum bergsýnunum og mögulegum farleiðum þeirra. Áhugi og þekking á bergfræði og steinagreiningu nauðsynleg.
1 jarðfræðinemi.

Greining svifdýrasýna í ferskvatni.
Verkefnið felst í úrvinnslu, greiningu og grófflokkun á svifdýrasýnum úr ferskvatni sem þegar hefur verið safnað. Áhersla er á krabbadýr, sér í lagi skötuorma. Aðallega er um innivinnu að ræða, en vettvangsferðir koma til greina. Unnið er undir leiðsögn sérfræðinga. Viðfangsefnið gæti hentað sem námsverkefni.
1 líffræðinemi.

Textafræðingur
Verkefnið felst í að aðstoða fræðimenn við Náttúruminjasafnið við ritstjórn texta og fjölbreytta gagnaöflun um umhverfi og náttúru landsins í bókmenntatextum úr heimildum og orðasöfnum.
1 nemi í íslenskum fræðum.

Heimildarýnir
Verkefnið felst í að að skanna og skrifa upp dagbækur og önnur gögn á handritaformi úr Mývatnssveit frá 19. og 20. öld. Upplýsingar um náttúru- og veðurfar, veiði í Mývatni, og landnýtingu og nýtingu annarra náttúruauðlinda verða dregnar saman til birtingar á aðgengilegu formi. Áhersla verður á að skanna og skrifa upp dagbækur sem eru í einkasöfnum, bæði vinnufólks og bænda og sýn þeirra á náttúru svæðisins. Áhersla verður lögð á dagbækur bænda sem aðgang hafa að veiði í vatninu og þeirra sem nær einungis hafa aðgang að beitarlandi.
1 nemi í sagnfræði, staðþekking í Mývatnssveit æskileg.

Hrafnamiðlari
Sumarið 2020 söfnuðu námsmenn fjölbreyttu efni um hrafninn, bæði sem lífveru og sem „menningarfyrirbæri“, þ.e. hvernig hann birtist í þjóðtrú, munnmælum og bókmenntum. Nú þarf að vinna úr þessu efni stutta afmarkaða og myndskreytta texta til birtingar á vef Náttúrminjasafnsins, sem endurspegla fjölbreytt samspil lífverunnar (líffræðilegt) og fuglsins sem birtist í menningunni. Grunnhugmynd að baki þessu verkefni er að flétta saman líffræðilega og menningarlega fjölbreytni. Því byggist verkefnið á samstarfi nema í menningarfræðum og líffræði.
1 nemi í menningartengdum fræðum, Í MA námi eða langt kominn í BA námi.

Orðasafnari
Verkefnið felst í að safna orðum úr íslenskum fornbókmenntum sem tengjast náttúru í víðum skilningi, úr orðstöðulyklum og gagnasöfnum og aðstoða fræðimann við Náttúruminjasafn Íslands við úrvinnslu þessara gagna.
1 nemi íslenskum fræðum, með reynslu af fræðistörfum.

Rýnir á verðmæti fjölbreytni náttúrunnar
Verkefnið felst í að taka þátt í rannsóknum sérfræðinga Náttúruminjasafnsins á fjölbreytni náttúrunnar (t.d. líffræðilegri fjölbreytni), með áherslu á gildi náttúrunnar, og þá sérstaklega hvaða verðmæti hugtakið fjölbreytni felur í sér. Vinna mun felast í að skoða kenningar og greina fræðilega texta um þetta mikilvæga mál og tengja það við þekkingu á fjölbreytni íslenskrar náttúru.
1 nemi í heimspeki /náttúrusiðfræði.