Sunnudagsleiðsögn í Safnahúsinu

Sunnudaginn 14. febrúar klukkan 14 mun Skúli Skúlason, prófessor við Náttúruminjasafn Íslands og Háskólann á Hólum ganga með gestum um sýninguna Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Leiðsögn Skúla mun beinast að sérstöðu íslenskrar náttúru, með hvaða hætti hún birtist í myndheimi, og á hvern hátt viðhorf okkar til náttúrunnar og umgengni mótast af sýn okkar og hugmyndaheimi.
Leiðsögnin er ókeypis og allir velkomnir!

Sýningin Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim var opnuð 18. apríl 2015 og er grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi þjóðarinnar. Í sjö álmum hússins eru jafn mörg sjónarhorn sem tengja saman ólík listaverk og áhugaverða muni, þvert á efni og tímabil. Sýningin er sam­starfs­verk­efni sex stofnana: Þjóðminjasafnsins, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Þjóðskjalasafns Íslands, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum  um sjón­ræn­an menn­ing­ar­arf og skartar margvíslegum gripum úr safnkosti þeirra; forngripum, listaverkum, skjölum, handritum og náttúrugripum. Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson.

Þetta var fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafnið tók þátt í eftir stofnun 2007. Þar setti safnið m.a. upp kjörgripasýningu um uppstoppaða geirfuglinn sem keyptur var til landsins 1971 og tímabundna sýningu sem nefndist Aldauði tegundar í samvinnu við Ólöfu Nordal, myndlistarmann. Þar sagði frá síðustu geirfuglunum og sýndar voru ljósmyndir af leifum þeirra sem varðveittar eru í Kaupmannahöfn.

Safnahúsið til Listasafnsins

Ákveðið hefur  verið að Listasafn Íslands taki nú við Safnahúsinu við Hverfisgötu en Þjóðminjasafnið hefur veitt húsinu forstöðu frá 2013. Því fer hver að verða síðastur til að njóta sýningarinnar Sjónarhorn  – ferðlag um íslenskan myndheim – sem verður opin til 1. apríl n.k. Listasafn íslands mun opna nýja grunnsýningu í húsinu í sumar.