Undirbúningur fyrir sýningu í Nesstofu hafinn
Undirbúningur er nú hafinn að sýningu í Nesstofu en um er að ræða samstarfsverkefni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Þjóðminjasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands. Sýningin mun fjalla um Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, en Nesstofa var reist á sínum tíma sem embættisbústaður fyrsta landlæknis Íslands og var Bjarni fyrstur til að gegna því embætti.
Nesstofa tilheyrir húsasafni Þjóðminjasafns Íslands og var reist af dönskum stjórnvöldum á árunum 1761-1767, teiknuð af Jacobi Fortling hirðarkitekt. Hefur Þjóðminjasafnið staðið að endurreisn Nesstofu í tveimur áföngum, á árunum 1980-1986 og 2004-2008. Með sýningunni mun Nesstofa hljóta verðugt hlutverk sem sýningarstaður og gestir geta notið þessarar einstöku byggingar sem er hluti af merkilegum kafla íslenskrar byggingarlistasögu.

Thomas Lyngby skoðar Nesstofu ásamt starfsfólki Þjóðminjasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands.
Rannsóknaleiðangrar þeirra Eggerts og Bjarna á árunum 1752-1757 var fyrsta stóra verkefni Dönsku Vísindaakademíunnar (Videnskabernes Selskab) sem var stofnuð árið 1842. Ferðabókin er auðug uppspretta náttúru- og þjóðlífslýsinga og var stórvirki á sínum tíma en í bókinni lýsa þeir félagar rannsóknum sínum. Ferðabókin kom út í Sórey árið 1772 og var rituð á dönsku. Í kjölfarið var hún þýdd á þýsku og frönsku og í styttri útgáfu á ensku. Þýðingarnar juku þekkingu á landi og þjóð og höfðu mikla þýðingu fyrir viðhorf umheimsins til Íslands.
Sýningin er liður í átaksverkefni íslenskra stjórnvalda til að efla dansk-íslenskt vísindasamstarf, sem hleypt var af stokkunum árið 2019. Danski sjóðurinn A.P. Møller og Hustru Chastine Mc-Kinney Møllers Fond til almene Formaal og menningar-, háskóla og nýsköpunarráðuneytið fjármagna sýninguna í sameiningu. Dr. Thomas Lyngby sagnfræðingur verður sýningarstjóri , en hann starfaði um árabil við Danmarks Naturhistorisk Museum.
Sýningin í Nesstofu er einungis hluti dansk-íslenska átaksins. Viðamiklar rannsóknir fara fram á vegum Hafrannsóknaseturs Margrétar Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur, sem hleypt var af stokkunum í apríl 2020. Þá er útgáfa Ferðabókarinnar í Danmörku í undirbúningi, en hún verður gefin út af Gads Forlag, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Videnskabernes Selskab. Meira er hægt að lesa um verkefnið hér.

Nesstofa og Náttúruhús í Nesi, nýjar höfuðstöðvar Náttúruminjasafns Íslands.
Það er von þeirra sem að sýningunni standa að hún muni varpa ljósi á mikilvægi dansk-íslensks vísindasamstarfs sem og færa 18. öldina nær almenningi í dag en á tímum upplýsingarinnar var lagður grunnur að vísindalegum aðferðum, þekkingu og hugmyndafræði sem við búum að enn í dag. Við gerð sýningarinnar verður tekið mið af nýjum rannsóknum sagnfræðinganna Árna Daníels Júlíussonar og Daniels Henschens um tilurð, samhengi og þýðingu Ferðabókarinnar í dönsku, íslensku og alþjóðlegu samhengi.
Nesstofa er staðsett steinsnar frá nýjum höfuðstöðvum Náttúruminjasafns Íslands, Náttúruhúsi í Nesi, sem tekið verður í notkun á næstunni. Sýningin um Ferðabókina mun ásamt Nesstofu sjálfri, Náttúruhúsinu og náttúrusýningum Náttúruminjasafnsins skapa einstaka heild, þar sem gestir geta fræðst um náttúru landsins, sögu þess og menningu í fortíð og nútíð og fengið innsýn í hvers vænta má í framtíðinni.