Tvísetið hjá Bergsveini í Perlunni

Margir urðu frá að hverfa í Perlunni sunnudaginn 14. mars þegar Bergsveinn Birgisson flutti fyrirlestur á vegum Náttúruminjasafnsins um Geirmund heljarskinn og kenningar fræðimanna um hlut rostungsveiða í landnámi Íslands. Vegna sóttvarna er aðeins pláss fyrir 70-80 manns í Stjörnuveri Perlunnar hverju sinni og flutti Bergsveinn fyrirlestur sinn tvívegis, kl. 14 eins og auglýst var og aftur kl. 15.

Vegna sóttvarna var að jafnaði aðeins setið í öðru hvoru sæti í Stjörnuverinu. Hér flytur Bergsveinn fyrirlestur sinn fyrir seinni hópinn sem hafði beðið í rúman klukkutíma!

Sýning Náttúruminjasafnsins um Rostunginn var opnuð fyrir réttu ári, en lokað degi síðar vegna samkomutakmarkana í kjölfar Covid-19. Greinilegt er nú þegar sýningin er opin á nýjan leik, að áhugi á umfjöllunarefni hennar er mikill. Væntanlega vegur bók Bergsveins Leitin að svarta víkingnum þar þungt, en einnig ný rannsókn á beinaleifum rostunga við Ísland, sem staðfestir að hér lifði í árhundruð séríslenskur rostungastofn sem dó út á landnámsöld. Sú staðreynd gefur kenningum um að fyrstu landnámsmennirnir hafi í raun verið hér í veri, eða á rostungavertíð, byr undir báða vængi.  

Hilmar J. Malmquist kynnir starfsemi Náttúruminjasafnsins fyrir gestum

Sýningin Rostungurinn  er opin alla daga kl. 10-18 á 2. hæð Perlunnar. Þar er sagt frá líffræði rostunga, viðkomu þeirra  og vexti og samfélagi rostunga en þeir eru hópdýr. Þá er sagt frá heimsóknum flækingsdýra úr norðri og áðurnefndri rannsókn. Ennfremur er fjallað um rostungsafurðirnar sem menn voru að sækjast eftir en það var einkum húðin og lýsið, en einnig kjöt og loks skögultennurnar sem voru konungsgersemi. Á sýningunni má m.a. sjá lengstu rostungstönn sem fundist hefur hér á landi og eftirmynd Lewis-taflmannanna sem margir telja að hafi verið skornir í rostungstönn á Íslandi. Sýningin Vatnið í náttúru Íslands er einnig opin 10-18 alla daga.