Langvía (Uria aalge)

Langvía telst til svartfugla, þeir tilheyra ættbálki strandfugla (Charadriiformes) og allir af sömu ættinni, svartfuglaættinni. Svartfuglar afla fæðu sinnar úr sjó, verpa við sjó og ala allan sinn aldur á sjó, nema þegar þeir koma á land til að verpa. Þetta eru langlífir fuglar sem verða seint kynþroska. Svartfuglar sýna maka tryggð, verpa í byggðum og þeir verpa allir einu eggi nema teista.
Langvía á flugi við Látrabjarg.
“Hringvía” í Látrabjargi

Útlit og atferli

Langvía er algengur og fremur stór svartfugl sem líkist mjög stuttnefju. Á sumrin er langvían brúnsvört að ofan en hvít að neðan. Dökkar kámur og flikrur á síðum eru einkennandi. Hvítir jaðrar armflugfjaðra mynda ljósa rák á aðfelldum væng. Á litarafbrigðinu „hringvíu“ er hvítur hringur kringum augu og hvítur taumur aftur og niður úr honum. Á veturna teygist hvítur litur bringunnar upp eftir kverk, hálshliðum og vöngum, en svört rák gengur aftur frá augum. Goggur er svartur, mjór og oddhvass. Grunnlitur fóta er svartur og augu eru svört.

Svipar í mörgu til álku og stuttnefju. Höfuðlag er þó annað, langvía er auk þess hálslengri og stélstyttri en álka. Hún flýgur með kýttan háls. Á erfitt um gang, situr á ristinni. Auðgreindust frá stuttnefju á kámugum síðum og því að engin hvít rák er á gogghliðum. Er afar félagslynd.

Gefur frá sér hávært, langdregið sarghljóð um varptímann.

Langvíur með unga í Skálasnagabjargi.
Stuttnefja til vinstri og langvía til hægri, saman á syllu.

Lífshættir

Langvían kafar af yfirborði eins og aðrir svartfuglar, aðalfæðan er síli og loðna, en það fer nokkuð eftir landshlutum hvaða fæða er helst í boði. Étur einnig síld og smákrabbadýr.

Langvía verpur í stórum byggðum í fuglabjörgum eða ofan á stöpum og klettaeyjum. Er annars á sjó, bæði á grunn- og djúpsævi. Verpur á berar syllur, hreiðurgerð er engin. Eggið er aðeins eitt og er álegutíminn 32–33 dagar. Er oft í stórum bælum og breiðum. Ungar yfirgefa byggðina snemma eins og hjá álku og stuttnefju. Þeir verða fleygir á 7–10 vikum. Björgin tæmast síðla júlímánaðar.

Útbreiðsla og stofnstærð

Stór hluti íslenska stofnsins verpur í þremur stærstu fuglabjörgunum, Látrabjargi, Hælavíkurbjargi og Hornbjargi. Merkingar með gagna-(dægur-) ritum undanfarin ár sýna, að fuglar merktir í Látrabjargi hafa vetursetu vestur og suðvestur af landinu, m.a. við Grænlandsstrendur og suður af Grænlandi. Fuglar merktir á Langanesi og við Skjálfanda hafa vetursetu norður og austur af landinu. Heimkynni langvíu eru við norðanvert Atlantshaf og Kyrrahaf, í Atlantshafi verpur hún allt norður til Svalbarða og suður til Portúgals.

Veiðar og vernd

Langvía hefur löngum verið nýtt í íslenskum björgum, bæði fuglar og egg. Langvíum fækkaði um 30% milli talninga 1983–1986 og 2006–2008 eða sem samsvarar um 1,6% á ári. Endurteknar talningar á fjórum stöðum árið 2009 sýndu áframhaldandi fækkun. Athuganir á sniðum í völdum björgum 2009–2017 sýndu enn áframhaldandi fækkun. Langvía er því flokkuð sem tegund í nokkurri hættu á nýlegum válista Náttúrufræðistofnunar (2018). Eggjataka er þó enn stunduð á nokkrum stöðum.

 

 

Svonefndur Gullblettur í Skrúðnum. Þetta er óvenjulegur varpstaður, fuglarnir verpa ofaná eynni, í urð.
Langvía í vetrarbúningi í Þorlákshöfn.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú segir fátt um langvíuna, en trúin tekur oft svartfuglana og hegðun þeirra saman. Það er helst að hún og þeir tengist veðurútliti, viti fyrir óveður, sérstaklega slæmar norðanáttir. Hún boðar einnig góðan afla, en sjómenn notuðu og nota enn fugla, sem og hvali, til að finna fiskitorfur.

Lítið hefur verið ort um langvíuna gegnum tíðina, en þeim mun meira um bjargsig og bjargnytjar, eins og þessi húsgangur úr Eyjum sýnir, en mynd fylgir með af Háubælum:

Hörð eru sig í Háubæli og hættuleg.
Hábrandinn ei hræðist ég,
en Hellisey er ógurleg

“Hringvía” í Látrabjargi
Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson