Spói (Numenius phaeopus)


 

Útlit og atferli

Spói er stór vaðfugl, háfættur og rennilegur. Hann er grábrúnn með ljósum fjaðrajöðrum að ofan, á bringu og niður á kvið en annars ljós á kviði og neðan á vængjum, með dökkbrúnan koll og augnrák en ljósa brúnarák og kverk. Hvítur gumpur og neðri hluti baks eru áberandi á flugi. Stél er þverrákótt og vængendar dökkir. Ungfugl er svipaður en goggur styttri og beinni.

Langur, grábrúnn goggurinn er boginn niður á við og einkennir fuglinn mjög. Langir fæturnir eru blágráir og augun eru dökk með ljósum augnhring.

Á flugi þekkjast spóar á hröðum vængjatökum. Þeir fljúga oft um í hópum síðla sumars, áður en þeir yfirgefa landið. Spóinn er annars fremur ófélagslyndur. Hann tyllir sér oft á háan stað, t.d. fuglaþúfu, og vellir. Söngur spóans, vellið, er eitt af einkennishljóðum íslenska sumarsins. Að auki gefur hann frá sér ýmis flauthljóð.

 

Spói á fuglaþúfu í Friðlandinu í Flóa.

Spói á flugi á Stokkseyri.

Spói á fuglaþúfu í Friðlandinu í Flóa.

Kjói og spói verpa gjarnan nærri hvor öðrum og eiga í eilífum erjum. Samband þeirra er eins konar ástar/haturssamband. Myndin er tekin á Brunasandi.

Lífshættir

Helsta fæða spóa eru skordýr, köngulær, sniglar, ormar, krabbadýr og ber. Langur goggurinn nýtist vel til að grípa fæðu á yfirborði og til að grafa í mjúkan leir.

Varpkjörlendi spóans er bæði í þurru og blautu landi en þéttleikinn er mestur í hálfdeigjum og þar sem mætast votlendi og þurrlendi. Hann verpur líka í lyngmóum, grónum hraunum, blautum mýrum og hálfgrónum melum og söndum. Urptin er fjögur egg eins og hjá flestum vaðfuglum. Hreiðrið er sinuklædd grunn laut í lágum gróðri, venjulega óhulið. Álegutíminn er fjórar vikur og verða ungarnir fleygir á 5-6 vikum. Er utan varptíma oft í túnum en sést sjaldan í fjörum. Þar má aftur á móti finna stóra bróður spóans, fjöruspóann, sérstaklega á veturna á SV- og SA-landi.

Spóaungi í Mýatnssveit.

Spói í berjamó í Mývatnssveit.

Stóri bróðir spóans, fjöruspói, er stærri og með lengri gogg, en hann vantar höfuðrákirnar, sem einkenna spóann. Hann er vetrargestur og strjáll varpfugl á Íslandi.

Spóar á farflugi við Dyrhólaey.

Útbreiðsla, ferðir og stofnstærð

Spóinn er farfugl. Hann er algengur á láglendi um land allt en strjáll á hálendinu. Vetrarstöðvarnar eru í Vestur-Afríku sunnan Sahara og lítils háttar á Spáni og Portúgal. Nýlegar rannsóknir sýna að spóarnir geta flogið í einum rykk til Vestur-Afríku. Um 40% af spóum heimsins verpa á Íslandi. Við berum því mikla ábyrgð á spóastofninum. Verpur annars víða umhverfis Norður-Íshafið.

Farleiðir fjögurra spóa frá Íslandi til og frá Vestur-Afríku samkvæmt gögnum frá Háskólafélagi Suðurlands. Um haustið flugu spóarnir í einni striklotu til Afríku, um vorið stoppuðu tveir á Írlandi.

Þjóðtrú og sagnir

Ýmis veðurtengd þjóðtrú tengist spóanum. Spóahret er kallað kuldakast sem verður þegar spóinn kemur til landsins og er sagt að hann færi það með sér. Þá eru úti allar vetrarhörkur þegar spóinn langvellir. Þá er úti vetrarþraut þegar spóinn vellir graut. Sumir segja að þegar spóinn velli mikið, sé votviðri í aðsigi. – Merki Fuglaverndar er spói á fuglaþúfu, eitt helsta einkenni íslenska sumarsins.

Kveðskapur

Krumminn í hlíðinni
Krumminn í hlíðinni,
hann var að slá.
Þá kom lóa lipurtá
og fór að raka ljá.
Hann gaf henni hnappa þrjá
og bannaði henni að segja frá.
Svo kom spói spíssnefur
og hann sagði frá
prakkarinn sá!
Þó var ljáin ekki nema
hálft annað puntstrá.

Gömul þula.

Til þess í vor þig finnur frær
hinn varmi vestanblær,
vellandi spóinn hlær.

Úr Fuglavísum eftir Eggert Ólafsson.

 

Létt um móa lækur niðar
Létt um móa lækur niðar
leysir snjóa, úti er þraut
Vellir spói vindur kliðar
vetrarhró er flúið braut

Eftir Hörð Haraldsson.

 

Sá ég spóa
Sá ég spóa suð’r í flóa,
syngur lóa út í móa.
Bí, bí, bí, bí.
Vorið er komið víst á ný.

Heyló syngur sumarið inn
Heyló syngur sumarið inn
semur forlög gaukurinn
áður en vetrar úti er þraut
aldrei spóinn vellir graut.

Þjóðvísur.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson