Urtönd (Anas crecca)


Urtöndin telst til andfuglaættbálksins ásamt svönum og gæsum, þessir fuglar tilheyra síðan allir sömu ættinni, andaætt. Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá andfuglum, og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Íslenskum öndum er skipt í buslendur, kafendur og fiskiendur.

Urtandarhjón að vetrarlagi í Fossvogsdal.

Urtandarhjón að vetrarlagi í Fossvogsdal.

Útlit og atferli

Urtönd er minnsta öndin sem verpur hér og raunar minnsta önd Evrópu. Hún er afar snör í snúningum og stygg. Í fjarska virðist steggurinn vera dökkgrár með dökkt höfuð. Hann er dökkrauðbrúnn á höfði og hálsi, með græna, ljósbrydda geira frá augum og aftur á hnakka. Bringan er gulleit með dökkum doppum, búkur að öðru leyti grár að undanskildum svörtum gumpi og undirgumpi, með rjómagulum flekkjum á hliðum. Svartar og hvítar axlafjaðrirnar mynda áberandi rákir á hliðum þegar vængir eru aðfelldir. Í felubúningi á fellitíma er steggur eins og kolla, en dekkri og jafnlitari að ofan. Kollan er gulbrúnflikrótt, eins og dvergvaxin stokkandarkolla, með dökkan koll og augnrák. Bæði kyn eru með hvítan kvið og dökkgræna vængspegla með áberandi hvítum framjaðri. Goggurinn er blágrár, kollan er oft með gult á skoltröndum. Fætur eru gráir með dekkri fitjum, augu brún. Steggur gefur frá sér lágt og flautandi hljóð, garg kollu er hvellt og hrjúft.

 

Urtandar- og stokkandarkollur í Fossvogsdal. Hinn mikli Stærðarmunurinn er sláandi.

Urtandarhjón að vetrarlagi í Fossvogsdal.

Þessi litli, kviki og hraðfleygi fugl er hálfgerður náttfugl og mest á ferli í ljósaskiptunum og á nóttunni. Oft sjást urtendur fljúga lágt í þéttum, litlum hópum og svipar þá til vaðfugla. Urtöndin hefur sig bratt til flugs, er lítil og þéttvaxin með hnöttótt höfuð, stuttan háls og mjóa vængi. Hún er félagslynd utan varptíma en afar stygg og felugjörn.

Lífshættir

Fæðuval og fæðuhættir er svipaðir og hjá öðrum buslöndum. Urtöndin etur fræ og græna plöntuhluta, einnig ber og á varptíma er próteinrík dýrafæða uppistaðan. Á sumrin er kjörlendi urtandar vot svæði á láglendi, t.d. grunnar tjarnir, skurðir, kílar, lygnar lindár, blautar mýrar og flóar. Hreiðrið er svipað og hjá öðrum buslöndum, venjulega vel falið í gróðri. Eggin eru 8–11, álegan tekur 21–23 daga og ungarnir verða fleygir á 25–30 dögum. Urtöndin heldur sig á veturna bæði á grunnum vogum eða víkum á sjó og á ferskvatni inn til landsins þar sem ekki leggur.

Urtandarhreiður í Flatey á Breiðafirði.

Urtandarkolla með unga í Flatey á Breiðafirði.

Útbreiðsla, ferðir og stofnstærð

Urtönd er að mestu farfugl. Hún er láglendisfugl en finnst einnig í gróðurvinjum á hálendinu. Hefur aðallega vetursetu á Bretlandseyjum, einkum Írlandi, en fer einnig víðar um V-Evrópu. Yfir 1000 fuglar eru staðfuglar og dvelja aðallega á Suður- og Suðvesturlandi yfir veturinn. Varpheimkynni eru víða í Evrópu og Asíu.

Skyldar tegundir – murtönd

Murtönd (Anas carolinensis) er amerísk frænka urtandarinnar. Hún var lengi talin undirtegund urtandar, en var í kringum aldamótin síðustu gerð að sértegund. Munurinn er enda lítill, murtönd er með hvíta skellu eða þverrönd fremst á síðunni, meðan urtöndin er með langrák ofan við síðuna á aðfelldum væng. Kollan verður ekki greind frá urtönd. Murtandarsteggir sjást venjulega með urtöndum.

Urtandahópur í friðlandinu í Vatnsmýrinni í Reykjavík.

Murtandarsteggur á Seltjarnarnesi.

Þjóðtrú og sagnir

Lítið er um urtöndina í íslenskri þjóðtrú, eins og raunin er um endur almennt. Endur voru helst taldar veðurvitar og voru þær jafnvel kallaðar spáfuglar vindanna. Sömuleiðis virðast skáld ekki hafa haft áhuga á að yrkja um þessa kviku önd, hinn tregafulli söngur villiandarinnar kveður ekki upp úr með tegundina.

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.