Gjafir

Gjafir frá velunnurum Náttúruminjasafnsins mynda mikilvægan hluta safnkosts stofnunarinnar og metur stofnunin slíkt mikils.

Náttúruminjasafnið hefur veitt eftirtöldum gjöfum viðtöku:

Lindýrasafn Jóhanns Jóns Þorvaldssonar (1915-2007). Gefið haustið 2009 af Magnúsi Jóhannssyni. Afhent í maí 2010. Um 800 tegundasýni sem flest innhalda mörg eintök. Frumskráningu í rafrænan gagnagrunn lokið.

Lindýrasafn Jóns Bogasonar (1923-2009). Gefið 2010 af börnum Jóns, þeim Herdísi, Sigurborgu, Boga, Sigurbjörgu og Berglindi. Afhent vorið 2011. Rúmlega 1100 tegundasýni sem hvert um sig samanstendur af einu eintaki eða fleirum. Um helmingur eintakanna er af erlendum toga. Auk þess fylgja vatnslitamyndir og teikningar eftir Jón af eintökum sem hann safnaði. Jafnframt 15 möppur af ljæósrituðum gagnaskám. Meginhluti safnsins var áður gefin Náttúrufræðistofunun Íslands og Náttúrufræðistofu Kópavogs. Frumskráningu í rafrænan gagnagrunn lokið.

Skordýrasan Ragnars Frank Kristjánssonar. Safn skordýra sem Ragnar safnaði í Skaftafelli í tíð sinni sem þjóðgarðsvörður. Gefið af Ragnari árið 2010.

Náttúrufræðingurinn 1931–1982. Afhent í mars 2014. Fyrstu 52. árgangar Náttúrufræðingsins, innbundnir í fallegt skinnband (1.–34. hefti) og laus hefti í skinnöskjum (35.–52. hefti). Gefið af Kristjönu G. Eyþórsdóttur, barnabarni Jóns Eyþórssonar (1895–1968), veðurfræðings, forseta Ferðafélags Íslands og formanns Jöklarannsóknafélags Íslands til margra ára.

Bóka- og tímaritagjöf Vatnalíffræðideildar Hafnarháskóla. Afhent í apríl 2014. Frumkvæði að gjöfinni átti Pétur M. Jónasson, fyrrv. prófessor og forstöðumaður Vatnalíffræðideildar Hafnarháskóla. Um er að ræða handbækur og tímarit einkum á sviði vatnalíffræði, alls 495 bókatitlar (560 bækur) og 23 tímarit (840 eintök). Flest verkin eru gömul og gefin út á tímabilinu 1850–1950. Elsta bókin er frá 1805 en alls eru 68 bækur frá tímabilinu 1805–1900. Á meðal bókanna eru fágæt og verðmæt verk, auk langra tímaritaraða á sviði vatnalíffræði sem hvergi eru til hér á landi og óvíða annars staðar í Evrópu. Upphaflega veitti Náttúrufræðistofa Kópavogs gjöfinni viðtöku í nóvember 2011 og sá um skráningu safnkostsins í Gegni. Hýsing Náttúrufræðistofunnar á gjöfinni var hugsuð til bráðabirgða, m.a. vegna skorts á geymslurými, og gerð í tíð þáverandi forstöðumanns stofunnar, dr. Hilmars J. Malmquists. Hilmar stundaði nám við Vatnalíffræðideild Hafnarháskóla í Hillerød á árunum 1985-92 og sinnti rannsóknum í Þingvallavatni um skeið undir forystu Péturs M. Jónassonar.

Bóka- og tímaritagjöf úr einkasafni Péturs M. Jónassonar. Afhent í apríl 2014. Um 500 bókatitlar og fjögur tímarit um náttúrufræðilegt efni, einkum á sviði vatnalíffræði. Á meðal titla eru fágætir dýrgripir. Gjöfin er á fjórum trébrettum, nær fjögur tonn að þyngd. Skráning á safnkostinum í Gegni stendur fyrir dyrum.