Grunnsýning
Sýningahald í Perlunni
Í mars 2013 hillti undir merk þáttaskil í starfsemi Náttúruminjasafnsins þegar undirritaður var samningur milli ríkisins og Reykjavíkurborgar um leigu á aðstöðu í Perlunni í Öskjuhlíð undir grunnsýningu á náttúru Íslands á vegum Náttúruminjasafns Íslands. Ákveðið var að leggja 500 m.kr. í uppsetningu á sýningunni og stefnt að opnun hennar í september 2014. Þessi áform gengu því miður ekki eftir þar eð meirihluti á Alþingi blés af bæði húsaleigusamninginn og stofnframlagið í fjáraukalögum 2013 og fjárlögum 2014.
Þrátt fyrir afgreiðslu mála á Alþingi hefur áfram verið stefnt að sýningahaldi á vegum Náttúruminjasafnsins í Perlunni, en með öðru rekstrarsniði en gengið var út frá samkvæmt húsaleigusamningnum frá mars 2013. Að frumkvæði Náttúruminjasafnsins hafa viðræður um verkefnið staðið yfir frá hausti 2013 milli Reykjavíkurborgar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Um tíma komu fulltrúar frá fjárfestingafélaginu Landsbréf Icelandic Tourism Fund I shlf. einnig að viðræðunum. Fjárfestarnir heltust úr lestinni vorið 2015 en komu aftur að viðræðunum síðar á árinu.
Hið nýja rekstrarsnið felur í stuttu máli í sér að rekstrarfélag í eigu Reykjavíkurborgar og eða fjárfesta mun halda utan um rekstur Perlunnar, þ.m.t. grunnsýningu á náttúru Íslands á vegum Náttúruminjasafnsins. Félagið tekur við tekjum (aðgangseyrir, leiga á rými undir veitingar, minjaverslun o.fl.) og nýtir þær til að greiða gjöld (húsaleigu, annan rekstrarkostnað og leigu til Náttúruminjasafnsins á grunnsýningunni) og arð til eigenda sinna. Þá hefur verið gengið út frá því að Náttúruminjasafnið hafi yfirumsjón með efnistökum og hugmyndafræði sýningarinnar, haldi utan um hönnun og uppsetningu hennar og tryggi faglegar og fagurfræðilegar kröfur.
Viðræður um framangreint Perluverkefni með þátttöku Náttúruminjasafnsins sigldu í strand í byrjun árs 2016 en 6. janúar birti Reykjavíkurborg auglýsingu þar sem óskað var eftir tilboðum frá áhugasömum aðilum um að sjá um rekstur og þjónustu á náttúrusýningu í Perlunni. Í kynningarefni auglýsingarinnar var ekki gert ráð fyrir neinni aðkomu Náttúruminjasafns Íslands. Því lítur út fyrir að Reykjavíkurborg hafi sagt sig frá viðræðunum en rétt er að benda á að viðræðurnar beindust að ráðuneyti Náttúruminjasafnsins og voru, eins og fyrr segir, að frumkvæði safnsins. Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hætta viðræðunum er hörmuð en óskandi að ráðherra og ráðuneytið gaumgæfi vel alla möguleika sem enn eru fyrir hendi á aðkomu Náttúruminjasafnsins að þessu brýna verkefni.
Nýjustu tíðindin sem varða mögulega aðkomu Náttúruminjasafnsins að Perluverkefninu, sem er á hendi einkahlutafélagsins Perlu norðursins, eru þau að í maí 2016 gerði Perla norðursins ehf. þáverandi ráðherra mennta- og menningarmála, Illuga Gunnarssyni, tilboð um þátttöku Náttúruminjasafns Íslands í sýningahaldi í afmörkuðu rými í Perlunni. Það tilboð mun enn vera í skoðun í ráðuneytinu en bæði Náttúruminjasafnið og Safnaráð veittu ráðuneytinu umbeðna umsögn um tilboðið. Staða mála er hins vegar önnur nú eftir að þingsályktun nr. 70/145 var samþykkt á Alþingi í lok þinghalds í tíð síðustu ríkisstjórnar og það verður a hafa í huga.