Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.

Askja

Norðan við Vatnajökul er eldstöðin Askja sem er sigketill í miðjum Dyngjufjöllum. Öskjur í eldfjöllum draga nafn sitt af eldstöðinni Öskju, en lengi vel var hún eina þekkta askjan eða sigketillinn á Íslandi. Öskjurnar í Dyngjufjöllum eru fjórar og í þeirri yngstu má finna Öskjuvatn sem er annað dýpsta vatn landsins, 220 m djúpt.
Askja í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni er merkt með rauðum punkti á kortið.

Askja í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni er merkt með rauðum punkti á kortið (kortagrunnur frá Landmælingum Íslands).

Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).

Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá USGS og NASA).

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Dyngjufjöll eru hluti af eldstöðvakerfi Öskju og ná allt að 1.510 metra yfir sjávarmál og rísa 700 metra yfir næsta nágrenni. Dyngjufjöll eru að mestu úr móbergi og hafa því myndast við eldgos undir jökli.

Eldstöðvakerfi Öskju er talið hafa verið virkt í a.m.k. 200.000 ár. Yfir 200 basísk hraungos hafa orðið í Öskju á síðustu 7.000 árum og 40 þeirra á síðastliðnum 1.100 árum. Einnig eru þekkt þrjú basísk tætigos. Af súrum gosum eru a.m.k. fjögur þekkt gos á síðastliðnum 11.000 árum.

 

Síðustu eldgos í Öskju

Ár Gerð eldgoss
1961 Basískt flæðigos
1921–1929 Basísk flæðigos, eldar með a.m.k. 5–6 eldgosum
1875 Basískt og súrt sprengigos

Stórt sprengigos varð í Öskju dagana 28.–29. mars 1875. Gosið átti sér nokkurn aðdraganda; vart varð við jarðskjálftahrinur frá eldstöðinni árið 1874 og einnig gufusprengingar og lítið eldgos í byrjun árs 1875. Sprengigosið er þriðja öflugasta gos sinnar tegundar sem orðið hefur á Íslandi á sögulegum tíma og þá myndaðist Öskjuvatn. Gosefnin úr sprengigosinu voru bæði basísk og súr, en það bendir til kvikublöndunar sem einnig hefur aukið kraftinn í gosinu. Mikill gosmökkur fylgdi gosinu og lagðist ljós aska og vikur yfir Austurland, frá Héraði til Berufjarðar. Á Jökuldal mældist vikurlagið allt að 20 cm þykkt. Askan frá eldgosinu barst víða og hefur fundist í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Þetta mikla öskufall olli búsifjum á Austurlandi og hafði áhrif á það hversu margir fluttu þaðan til Vesturheims.

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.

Nærmynd af brotsárinu eftir berghlaupið í Suðurbotnum í júlí 2014.

Nærmynd af brotsárinu eftir berghlaupið í Suðurbotnum í júlí 2014.

Stórt berghlaup féll í júlí 2014 úr Suðurbotnum en svo nefnist fjallshlíðin suðaustan við Öskjuvatn. Berghlaupið féll í Öskjuvatn og myndaði flóðbylgju sem talin er hafa náð 20–40 metra hæð. Töluverðar breytingar urðu á landslagi í kjölfar flóðbylgjunnar. Merki um berghlaupið komu fram á jarðskjálftamælum og er það eitt stærsta berghlaup á sögulegum tíma á Íslandi, en talið er að rúmmál þess hafi verið um 20 milljónir m3.
Jarðlagaopna eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Jarðlagaopna eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Sethólar eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Sethólar eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Ítarefni

Carey, R.J., Houghton, B. & Thordarsson, T. 2010. Tephra dispersal and eruption dynamics of wet and dry phases of the 1875 eruption of Askja volcano, Iceland. Bulletin of volcanology 72. 259–278.

Jón Kristinn Helgason, Sigríður Sif Gylfadóttir, Sveinn Brynjólfsson, Harpa Grímsdóttir, Ármann Höskuldsson, Þorsteinn Sæmundsson, Ásta Rut Hjartardóttir, Freysteinn Sigmundsson & Tómas Jóhannesson 2019. Berghlaupið í Öskju 21. júlí 2014. Náttúrufræðingurinn 89. 5–21.

Kristján Sæmundsson & Freysteinn Sigmundsson 2013. Norðurgosbelti. Bls. 343–353 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Thordarson, T. & Larsen, G. 2007. Volcanism in Iceland in historical time: Volcano types, eruption styles and eruptive history. Journal of Geodynamics 43. 118–152.

Þorvaldur Þórðarson & Hartley, M. 2019. Askja. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 3.4.2020 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=ASK#.