Eyjafjallajökull. Ljósm. Hugi Ólafsson

Eyjafjallajökull

Eyjafjallajökull er einn af minni jöklum Íslands. Hann er við suðurströndina, rétt vestan Mýrdalsjökuls. Undir jöklinum er eldkeila sem nær hæst 1.651 m yfir sjávarmál og efst í henni er askja sem er um 2,5 km í þvermál. Eldstöðvakerfi Eyjafjallajökuls er hluti af Austurgosbeltinu. Í eldstöðvakerfinu er megineldstöð sem er um 25 km löng og 15 km breið, en enginn sprungusveimur. Gígjökull er skriðjökull sem skríður til norðurs frá toppgíg Eyjafjallajökuls og er sýnilegur á leið inn í Þórsmörk.

Eyjafjallajökull er merktur með rauðum punkti á kortið.

Loftmynd af Eyjafjallajökli og svæðinu í kring. Efst í jöklinum sést hvar askjan er staðsett. (Loftmyndir ehf., 2019)

Elsta berg eldstöðvakerfis Eyjafjallajökuls er um 800.000 ára gamalt. Eldgos í kerfinu koma upp um toppgíg fjallsins eða á sprungum í fjallshlíðum. Sprengigos úr Eyjafjallajökli eru ísúr til súr en flæðigosin geta verið basísk, ísúr eða súr, en þau eru þó oft lítil. Vitað er um fjögur gos úr kerfi Eyjafjallajökuls á sögulegum tíma; um 920 varð gos á sprungu sem olli jökulhlaupi, 1612 eða 1613 varð minniháttar sprengigos, 1821–1823 varð lítið sprengigos í toppgígnum og síðast gaus Eyjafjallajökull árið 2010.

Eldgosið 2010 byrjaði með flæðigosi á Fimmvörðuhálsi 20. mars sem stóð til 12. apríl. Tveimur dögum síðar hófst sprengigos í toppgíg Eyjafjallajökuls. Í kjölfar þess urðu nokkur jökulhlaup fyrstu dagana. Gosmökkurinn náði yfir 7 km hæð og varð mikið öskufall í nágrenni jökulsins. Gígjökulslón stíflaðist við öskufallið og bújarðir í nágreni Eyjafjallajökuls fóru nánast á kaf í ösku. Askan úr gosinu var mjög fíngerð, en þegar sprengivirknin og öskufallið var sem mest var mjög sterk norðanátt sem flutti öskuna suður og suðaustur, og náði askan alla leið til meginlands Evrópu. Þetta hafði mikil áhrif á flugsamgöngur í álfunni, sem lögðust því sem næst algjörlega af í fimm daga meðan gosið stóð sem hæst.

Gosstrókurinn á Fimmvörðuhálsi vakti mikla athygli og blasti við þeim fjölmörgu sem lögðu leið sína upp að gosinu. Ljósm. Gunnar Baldursson.

Sprengigosinu lauk 23. maí 2010. Eftir það féll engin aska, en sjá mátti smávægilega gosvirkni nokkra daga í júní. Þó svo að áhrif gossins hafi verið mikil telst gosið sjálft aðeins meðalstórt þegar litið er til magns gosefna. Í gosinu myndaðist um 0,27 km3 af gjósku og 0,023 km3 af hrauni. Til samanburðar er Holuhraun 1,4 km3 að rúmmáli.

Rauðglóandi hraunflæðið á Fimmvörðuhálsi. Ljósm. Gunnar Baldursson.

Gosmökkurinn úr Eyjafjallajökli 2010 olli miklu öskufalli. Ljósm. Þorvaldur Þórðarson.

Eyjafjallajökull tignarlegur að sumarlagi. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Ítarefni

Freysteinn Sigmundsson, Sigrún Hreinsdóttir, Hooper, A., Þóra Árnadóttir, Pedersen, R., Roberts, M.J., Níels Óskarsson, Auriac, A., Decriem, J., Páll Einarsson o.fl. 2010. Intrusion triggering of the 2010 Eyjafjallajökull explosive eruption. Nature 468. 426–432.

Magnús T. Guðmundsson & Ármann Höskuldsson. 2019. Eyjafjallajökull. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 7. janúar 2021 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=EYJ#.

Guðrún Larsen, Freysteinn Sigmundsson & Dugmore, A. 2013. Eyjafjallajökull. Bls. 291–297 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Freysteinn Sigmundsson, Ármann Höskuldsson, Steinunn Sigríður Jakobsdóttir, Björn Oddsson, Eyjólfur Magnússon, Þórdís Högnadóttir, Þorvaldur Þórðarson & Halldór Björnsson. 2013. Eldur í Eyjafjallajökli 2010. Bls. 299–311 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Petersen, G.N., Halldór Björnsson & Þórður Arason. 2012. The impact of the atmosphere on the Eyjafjallajökull 2010 eruption plume. Journal of Geophysical Research 117. 1–14.