Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.

Grímsvötn. Ljósm. Magnús Tumi Guðmundsson.

Grímsvötn

Grímsvötn er megineldstöð sem er staðsett vestan við miðju Vatnajökuls og er að mestu hulin jökli. Eldstöðvakerfi Grímsvatna samanstendur af megineldstöðinni og sprungusveimi, og er um 100 km að lengd og 20 km að breidd. Kerfið er hluti af Austurgosbeltinu og teygir sig til suðvesturs með Lakagígum. Eldstöðin er sú virkasta á landinu og er vitað um rúmlega 60 gos frá henni á sögulegum tíma, en Grímsvötn eru einnig eitt öflugasta jarðhitasvæði landsins. Í toppi megineldstöðvarinnar er askja og undir íshellunni er stöðuvatn sem tæmist og endurnýjast með reglubundnum hætti vegna jarðhita, eldgosa og jökulhlaupa. Síðast gaus í Grímsvötnum 2011.

Askja í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni er merkt með rauðum punkti á kortið.

Grímsvötn eru merkt með rauðum punkti á kortið.

Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).

Grímsvötn í Vatnajökli. Úr lofti má sjá öskjuna í toppi Grímsvatna ásamt skörpum suður barminum sem er Grímsfjall. (Gervitunglamynd frá USGS og NASA).

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Askjan í toppi Grímsvatna eftir að gosi lauk í maí 2011. Ljósm. Magnús Tumi Guðmundsson.

Eldstöðvakerfi Grímsvatna liggur að mestu undir Vatnajökli en hluti þess nær út fyrir jökulinn til suðvesturs, með Austurgosbeltinu í átt að Mýrdalsjökli. Eldvirkni kerfisins sem liggur undir jökli einkennist af basískum sprengigosum, þar sem viðkoma bráðins jökulíss við kviku sem kemur upp ýtir undir sprengivirkni og framleiðslu á gjósku. Aftur á móti einkennist eldvirkni kerfisins utan við jökulinn af basískum flæðigosum.

Jökulhlaup eru algeng samfara eldgosum úr Grímsvötnum þar sem mikið magn jökulíss getur bráðnað og fyllt öskjuna af vatni. Ef þrýstingurinn verður nægilega mikill lyftist íshellan yfir öskjunni sem veldur því að gríðarlegt magn af vatni brýst skyndilega fram. Af þessari ástæðu er stöðugt eftirlit með öskjunni og eldstöðinni í Grímsvötnum. Á Grímsfjalli er vefmyndavél sem beinist að öskjunni og einnig er GPS mælir á íshellunni. Vatnshæð og rafleiðni eru mæld í Gígjukvísl.

 

Ár Gerð eldgoss
2011 Sprengigos
2004 Sprengigos
1998 Sprengigos
1996 Sprengigos á sprungu utan aðalöskjunnar (Gjálp)
1984 Sennilega smágos
1983 Sprengigos
1938 Sprengigos á sprungu utan aðalöskjunnar
1934 Sprengigos
1933 Smágos
1922 Sprengigos
1902 Sprengigos

 

Eitt frægasta eldgos úr Grímsvatnakerfinu eru Skaftáreldar, en í þeim mynduðust Lakagígar. Eldgosið stóð yfir í átta mánuði, það hófst 8. júní 1783 og lauk því 7. febrúar 1784. Þetta gos er annað stærsta flæðigos á sögulegum tíma á eftir Eldgjárgosinu 934–940. Hraunið sem myndaðist í Skaftáreldum er um 14,7 km3 að rúmmáli, til samanburðar er Holuhraun 1,4 km3 að rúmmáli. Skaftáreldar hófust með stuttu sprengigosi á lítilli sprungu sem olli því að hraun fór að renna í Skaftá. Fjórum dögum seinna náði hraunið niður á láglendið, 35 km í burtu. Hraunið hélt áfram að renna þangað til eldgosinu lauk og fór allt að 65 km frá upptökum. Gígaröðin sem myndaðist í Skaftáreldum er 27 km löng og liggur norðaustan og suðvestan við móbergsfjallið Laka, sem hún er kennd við. Sjálft fjallið Laki er þó miklu eldra en Lakagígar.

 

Skaftáreldum fylgdi hörmungartíð sem er þekkt sem móðuharðindin, mestu náttúruhamfarir Íslandssögunnar. „Móðan“ stafaði af mikilli framleiðslu á brennisteinsgufu frá eldgosinu en sú mengun leiddi til hungursneyðar og uppskerubrests um allt land sem og á meginlandi Evrópu og víðar um heim. Agnir úr eldgosinu hindruðu sólarljósi á leið til jarðar, veðurfar kólnaði og var veturinn eftir Skaftárelda einn sá harðasti sem hefur verið skráður í Evrópu og Norður-Ameríku. Loftslagsáhrifin frá Skaftáreldum stóðu yfir í 2–3 ár.

Síðast gaus í Grímsvötnum 21.–28. maí 2011. Um var að ræða sprengigos í öskju Grímsvatna undir Vatnajökli, þar sem megineldstöð kerfisins er. Þetta gos var öflugra en eldgosið í Grímsvötnum 2004 og í Eyjafjallajökli 2010. Gosmökkurinn náði mest 20 km hæð og sendi fíngerða ösku út í andrúmsloftið. Askan raskaði flugumferð en þar sem hún var grófari en fínasta askan úr Eyjafjallajökli, hafði hún ekki eins mikil áhrif.

Virkni íslenskra eldstöðva er táknuð með litakóða sem segir til um líkurnar á eldgosi í þeirri tilteknu eldstöð. Grímsvötn er eina eldstöðin sem er nú merkt með gulum lit, en það merkir að virkni hennar sé meiri en telst venjulegt. Algengast er að eldstöðvar séu merktar með grænum lit en þá bendir ekkert til þess að eldgos sé í vændum. Í maí 2020 voru vísbendingar um að Grímsvötn væru að búa sig undir eldgos þar sem aflögunarmælingar bentu til þess að kvika hefði safnast fyrir og þrýstingur í kvikuhólfinu væri að aukast.

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Gosmökkurinn við eldgosið í Grímsvötnum 2011 var umfangsmikill og náði mest 20 km hæð. Ljósm. Þórdís Högnadóttir.

Nú þegar komið er fram í nóvember hefur þó ekkert gerst í Grímsvötnum ennþá en algengt er að það líði 5–10 ár á milli eldgosa í eldstöðinni. Í september á þessu ári var litakóðinn færður yfir á gult þar sem virknin hefur verið að stigmagnast. Því aukast sífellt líkurnar á að Grímsvötn gjósi á næstu mánuðum eða árum.

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.

Grímsvatnagosið 2011 var öflugt og truflaði flugumferð um tíma. Ljósm. Þórdís Högnadóttir.

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.

Gosmökkurinn frá eldgosinu í Grímsvötnum 2004. Ljósm. Magnús Tumi Guðmundsson.

Ítarefni

Magnús T. Guðmundsson & Guðrún Larsen. 2019. Grímsvötn. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 26. október 2020 af http://islenskeldfjoll.is/?volcano=GRV#.

Magnús T. Guðmundsson, Guðrún Larsen & Þorvaldur Þórðarson. 2013. Grímsvötn. Bls. 235–251 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Magnús T. Guðmundsson & Helgi Björnsson. 1991. Eruptions in Grímsvötn, Vatnajökull, Iceland, 1934–1991. Jökull 41. 21–45.

Veðurstofa Íslands. 2020. Eldfjöll – litakóði. Sótt 10. nóvember 2020 af https://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/eldgos/.

Veðurstofa Íslands. 2011. Gos í Grímsvötnum: Fylgst með stöðu mála. Sótt 4. nóvember 2020 af https://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/frodleikur/greinar/nr/2179.

Þorvaldur Þórðarson & Self, S. 1993. The Laki (Skaftár Fires) and Grímsvötn eruptions in 1783–1785. Bulletin of Volcanology 55. 233–263.

Þorvaldur Þórðarson & Self, S. 2003. Atmospheric and environmental effects of the 1783–1784 Laki eruption: A review and reassessment. Journal of Geophysical Research 108. 1–29.