Hekla

Hekla

Hekla er eitt virkasta og þekktasta eldfjall á Íslandi. Fyrr á tímum var Hekla talin dyrnar að helvíti og jafnvel að þar væri helvíti sjálft að finna. Hekla er um 1.500 metra há megineldstöð í samnefndu eldstöðvakerfi. Megineldstöðin sjálf er um 20 km löng og 10 km breið, en eldstöðvakerfi Heklu er mun umfangsmeira og um 60 km langt.

Hekla er svokallaður eldhryggur og er auðþekkjanleg í landslaginu þar sem hún er í laginu eins og bátur á hvolfi. Hekla hefur orðið til í síendurteknum eldgosum í Heklugjá, en svo nefnist gossprungan sem liggur eftir hryggnum endilöngum.

 Íslandskort Guðbrands biskups Þorlákssonar frá árinu 1590, þar sem Hekla er teiknuð eins og dyr að helvíti. (Sótt á vef Íslandskorts).

 Íslandskort Guðbrands biskups Þorlákssonar frá árinu 1590, þar sem Hekla er teiknuð eins og dyr að helvíti. (Sótt á vef Íslandskorts). 

 Hekla í Rangárvallasýslu er merkt með rauðum punkti á kortið.

Hekla í Rangárvallasýslu er merkt með rauðum punkti á kortið (kortagrunnur frá Landmælingum Íslands). 

 Hekla. Úr lofti sést hryggjarlag fjallsins vel og liggur það með sömu stefnu og sprungur á svæðinu. (Gervitunglamynd frá NASA og USGS).

 Hekla. Úr lofti sést hryggjarlag fjallsins vel og liggur það með sömu stefnu og sprungur á svæðinu. (Gervitunglamynd frá NASA og USGS). 

Hekla séð úr Þjórsárdal. Frá þessu sjónarhorni er hún eins og bátur á hvolfi.

Hekla séð úr Þjórsárdal. Frá þessu sjónarhorni er hún eins og bátur á hvolfi. 

Eldgos í Heklu eru nokkuð tíð og eru oftast svokölluð blandgos en þá hefst gos á sprengigosi með öskufalli og endar í flæðigosi með hraunflæði. Blandgos og sprengigos koma aðallega úr megineldstöð Heklu en flæðigosin úr Heklukerfinu sem er sprungurein eldstöðvakerfisins. Efnasamsetning gosefna í Heklugosum er allt frá því að vera basísk til súr.
Í stórum, súrum sprengigosum í Heklu hefur orðið til mikið magn af gjósku sem leiddi til þess að þykk gjóskulög lögðust yfir landið með tilheyrandi gróðureyðingu. Sem dæmi má nefna að Hekla-3 gjóskan var um 12 km3 að rúmmáli og er gosið talið eitt af þeim stærstu á síðastliðnum 10.000 árum. Til samanburðar var rúmmál gjóskunnar frá Eyjafjallajökli 2010 einungis 0,27 km³.

Gossaga Heklu frá árinu 1104. Mörg eldri gos eru þekkt.

Ár Gerð eldgoss   Ár Gerð eldgoss
2000 Blandgos   1636 Blandgos
1991 Blandgos   1597 Blandgos
1980-1981 Blandgos   1554 Flæðigos*
1970 Blandgos   1510 Blandgos
1947-1948 Blandgos   1389 Blandgos
1913 Flæðigos*   1341 Blandgos
1878 Flæðigos*   1300 Blandgos
1845 Blandgos   1222 Blandgos
1766-1768 Blandgos   1206 Blandgos
1725 Flæðigos*   1158 Blandgos
1693 Blandgos   1104 Sprengigos

*Úr Heklukerfi

Jarðvegssnið þar sem sjá má fjögur algeng leiðarlög. Ljósu gjóskulögin eru Hekla-4 og Hekla-3, þau dökku og yngri eru Katla (1.150 ára gamalt) og Landnámslagið úr Bárðarbungu-Veiðivatnakerfinu (1.079 ára).

Jarðvegssnið þar sem sjá má fjögur algeng leiðarlög. Ljósu gjóskulögin eru Hekla-4 og Hekla-3, þau dökku og yngri eru Katla (1.150 ára gamalt) og Landnámslagið úr Bárðarbungu-Veiðivatnakerfinu (1.079 ára). 

Í sprengigosum framleiðir Hekla mikið af gjósku. Víða um land má finna gjóskulög frá nútíma, þ.e. frá síðustu ~10.000 árum, sem komið hafa frá Heklu og er meirihluti súrra gjóskulaga hér á landi úr Heklugosum. Gjóskulögin eru mikilvæg í gjóskulagafræði eða gjóskutímatali þar sem skilgreind eru svokölluð leiðarlög eða gjóskulög sem finnast víða um land og eru auðþekkjanleg. Dæmi um mikilvæg leiðarlög frá Heklu eru gjóskulögin Hekla-5 (7.000 ára gamalt), Hekla-4 (4.260 ára) og Hekla-3 (3.000 ára) en þessi gjóskulög finnast í jarðvegi víða um land og eru súr og því ljós að lit. Út frá leiðarlögunum eru jarðlagasnið og atburðir eins og eldgos tímasettir. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur (1912–1983) var frumkvöðull í gjóskulagafræði og sýndi fram á mikilvægi hennar við vísindalegar rannsóknir. Í dag er gjóskulagafræði notuð í ýmsum fræðigreinum, t.d. jarðfræði, loftslagsfræði og fornleifafræði.

 Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur á Heklutindi árið 1948.

Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur á Heklutindi árið 1948. 

Aukin þekking og vöktun á virkum eldfjöllum auðveldar vísindamönnum að segja til um upphaf eldgosa með einhverjum fyrirvara. Heklugosið árið 2000 var með fyrstu gosum sem spáð var fyrir um. Ríkisútvarpið tilkynnti í fréttum kl. 18 þann 29. febrúar 2000 að Heklugos væri yfirvofandi og rúmlega fimmtán mínútum síðar hófst gosÞessi atburður leiddi í ljós hve mikilvægt það er að vakta virk eldfjöll í því skyni að koma skilaboðum fljótt áleiðis til almennings, en um það sjá Veðurstofa Íslands og Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. 

Hekla séð frá Búrfelli. Algengt er að toppurinn á Heklu sé hulin skýjum.

Hekla séð frá Búrfelli. Algengt er að toppurinn á Heklu sé hulin skýjum. 

Ítarefni

Guðrún Larsen & Jón Eiríksson 2008. Holocene tephra archives and tephrochronology in Iceland – a brief overview. Jökull 58. 229–250.

Guðrún Larsen & Sigurður Þórarinsson 1977. H4 and other acid Hekla layers. Jökull 27. 29–46.

Guðrún Larsen & Þorvaldur Þórðarson 2019. Hekla. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 1.4.2020 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=HEK#.

Morgunblaðið 2000. Viðvörun um Heklugos. Sótt 1.4.2020 af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/521461/

Sigurður Þórarinsson 1971. Aldur ljósu gjóskulaganna úr Heklu samkvæmt leiðréttu geislakolstímatali. Náttúrufræðingurinn 41. 99–105.

Sigurður Þórarinsson 1968. Heklueldar. Prentsmiðja Jóns Helgasonar, Reykjavík.