Krafla

Megineldstöðin Krafla er staðsett norður af Mývatni og hefur hún mótað landslagið við vatnið og norður af því. Eldstöðvakerfi Kröflu er hluti af Norðurgosbeltinu og er það um 100 km langt. Hæsti tindur kerfisins nær 818 m yfir sjávarmál, kerfið inniheldur sprungusveim og í því miðju er 8-10 km víð askja. Á Kröflusvæðinu er einnig háhitasvæði sem er nýtt af jarðvarmavirkjun sem hóf starfsemi sína árið 1977.

Krafla er merkt með rauðum punkti á kortið.

Horft norðaustur yfir Mývatn í átt að Reykjahlíð og Kröflusvæðinu. Ljósm. Hugi Ólafsson.

.

Víti í Kröflu er gígur sem staðsettur er nálægt hæsta tindi Kröflusvæðisins. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Elsta bergið frá megineldstöð Kröflu er um 300.000 ára en askjan myndaðist fyrir um 110.000 árum. Kröflusvæðið hefur verið mjög virkt á nútíma og einkennist gosvirkni þess einkum af eldgosahrinum eða „eldum“ sem hafa staðið yfir um nokkurra ára skeið í einu. Á síðustu 12.000 árum má skipta gosvirkni kerfisins í þrjú gosskeið, fyrsta skeiðinu lauk fyrir 8.000 árum, annað skeiðið var fyrir 8.000-2.800 árum síðan og þriðja skeiðið markar síðustu 2.800 árin. Minnst er vitað um eldvirkni elsta skeiðsins en eftir því sem nær dregur okkur í tíma eru meiri upplýsingar til staðar, til að mynda hafa alls sex eldar orðið á síðasta skeiðinu.
Hverfjall er staðsett austan við Mývatn og er það gjóskugígur sem myndaðist í sprengigosi úr Kröflukerfinu fyrir um 2.800 árum síðan. Við gosið hefur Mývatn líklegast náð þangað sem Hverfjall er núna og komst vatn í snertingu við basaltkviku sem olli gufusprengingum. Vegna gufusprenginga tætist kvikan og verður að gjósku sem hleðst upp í kringum gosopið.

Hverfjall er vinsælt kennileiti fyrir Mývatnssvæðið. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Umfangsmesta nútímahraun á Mývatnssvæðinu er Laxárhraun yngra sem á uppruna sinn úr tveimur gígaröðum, Lúdentsborgum og Þrengslaborgum, sem eru staðsettar sunnan við Hverfjall. Hraunið úr gígaröðunum rann fyrir um 2.300 árum síðan og er um 220 km2 að flatarmáli. Þetta hraun rann yfir stóran hluta Mývatnssvæðisins og við það mótaðist Mývatn í núverandi mynd. Það fór niður Laxárdal og Aðaldal og náði út í sjó við Skjálfanda. Við hraunrennslið mynduðust bæði margir gervigígar við Mývatn þegar hraun rann út í og yfir vatnið, sem og Dimmuborgir.

Samtals eru gígaraðirnar Lúdentsborgir og Þrengslaborgir 12 km langar. Ljósm. Gunnar Baldursson.

Ár Atburður
1975-1984 Kröflueldar
1724-1729 Mývatnseldar
Fyrir 1.100 árum Eldar
Fyrir 2.200 árum Eldar
Fyrir 2.500 árum Eldar
Fyrir 2.800 árum Sprengigos (Hverfjall)
Fyrir 5.000 árum Basískt flæðigos og sprengigos
Fyrir 12.000-8.000 árum Dyngjugos og basísk flæðigos

Gígar Þrengslaborgar. Ljósm. Gunnar Baldursson.

Eldsumbrot sem innihalda tvö eða fleiri eldgos og vara í mánuði eða áraraðir kallast eldar. Slík umbrot urðu í Kröflu á árunum 1975-1984 og kallast Kröflueldar. Þessi eldsumbrot voru þau umfangsmestu á Íslandi á síðustu öld. Í Kröflueldum urðu alls níu basísk flæðigos með heildarrúmmál 0,25 km3 og eru ummerki sjáanleg á um 70 km löngu svæði sem nær frá Hverfjalli og út í sjó í Öxarfirði. Á sama tíma og eldsumbrotin voru að hefjast árið 1975 voru framkvæmdir að hefjast á jarðvarmavirkjun á Kröflusvæðinu. Eldarnir ollu því að framkvæmdum seinkaði þar sem mikil virkni var í gangi á því svæði sem núverandi Kröfluvirkjun er staðsett.

Jarðhitasvæðið í Námaskarði tilheyrir Kröflusvæðinu. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Ítarefni:

Kristján Sæmundsson. 1991. Jarðfræði Kröflukerfisins. Bls. 25–95 í: Náttúra Mývatns (ritstj. Arnþór Garðarsson & Árni Einarsson). Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík.

Kristján Sæmundsson. 2019. Krafla. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 3.6.2020 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=KRA.

Kristján Sæmundsson & Freysteinn Sigmundsson. 2013. Norðurgosbelti. Bls. 319–357 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Ólafur Jónsson. 1946. Frá Kröflu. Náttúrufræðingurinn 16. 152–157.

Páll Einarsson. 1991. Umbrotin við Kröflu 1975-89. Bls. 97–139 í: Náttúra Mývatns (ritstj. Arnþór Garðarsson & Árni Einarsson). Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík.

Páll Imsland. 1989. Um Kröfluelda. Náttúrufræðingurinn 59. 57–58.