Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.

Hvannadalshnjúkur. Ljósm. Anna Soffía Óskarsdóttir.

Öræfajökull

Öræfajökull er syðsti hluti Vatnajökuls og undir jökulhettunni er eldkeila sem er jafnframt stærsta eldstöð Íslands. Öræfajökull er einnig önnur stærsta eldkeila Evrópu, en sú stærsta er Etna á Sikiley. Hvannadalshnjúkur (2.110 m), er hæsti tindur Öræfajökuls og jafnframt hæsti tindur landsins. Allmargir skriðjöklar ganga út frá Öræfajökli, þar má nefna Skaftafellsjökul, Svínafellsjökul, Kvíárjökul og Fjallsjökul.
Askja í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni er merkt með rauðum punkti á kortið.

Öræfajökull er merktur með rauðum punkti á kortið (kortagrunnur frá Landmælingum Íslands).

Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).

Askjan í toppi fjallsins sést vel þegar horft er á jökulinn úr lofti. (Sentinel-2 gervitunglamynd frá COPERNICUS EU).

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Svínafellsjökull er einn af skriðjöklum Öræfajökuls. Ljósm. Anna Soffía Óskarsdóttir.

Megineldstöð Öræfajökuls er um 20 km í þvermál og í toppi hennar er askja, um 4–5 km að þvermáli. Askjan er um 500 m djúp og ísfyllt. Eldstöðvakerfi Öræfajökuls liggur á samnefndu gosbelti, Öræfajökulsbeltinu, sem er, ásamt Esjufjöllum og Snæfelli, fyrir utan megingosbelti landsins. Öræfajökull er eitt af fáum eldstöðvakerfum á landinu sem er megineldstöð án sprungusveims. Aldur Öræfajökuls og berggrunnsins undir honum er ekki nákvæmlega þekktur, elstu berglög frá eldstöðinni eru um 800 þúsund ára gömul, en talið er að fjallið hafi hlaðist upp ofan á nokkurra milljón ára gamalli jarðskorpu.

 

Þó svo að Öræfajökull sé stærsta eldstöð landsins er hann ekki sú virkasta. Á sögulegum tíma hefur einungis gosið tvisvar sinnum í Öræfajökli, á árunum 1362 og 1727. Eldgosið árið 1362 var súrt sprengigos þar sem upp kom um 10 km3 af gjósku og er þetta gos því stærsta sprengigos á sögulegum tíma á Íslandi. Eldgosið er einnig annað stærsta sprengigosið í Evrópu á eftir gosinu í Vesúvíusi á Ítalíu árið 79.

Snemma í gosinu 1362 féllu mikil gjóskuflóð og gusthlaup. Gjóskuflóð verða þegar gosstrókur fellur og loftborin gosefni (gjóska og gös) hlaupa fram með jörðu í miklu magni. Hlaupin geta náð tugi kílómetra frá upptökum þar sem þau fylgja landslagi. Þau geta náð allt að 500 km hraða á klukkustund og htinn verið allt frá 100°C upp í 800°C.

Gusthlaup er annað form gjóskustrauma en þau geta myndast samhliða gjóskuflóðum eða ein og sér. Gusthlaup eru gasríkari og innihalda minna magn af föstum efnum og því er hegðun þeirra ólík gjóskuflóðum. Þau geta ferðast upp hæðir og hóla en ná ekki eins langt frá upptökum og flóðin. Gusthlaup geta þó náð nokkra kílómetra frá upptökum.

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.

Vesturhlið Öræfajökuls séð frá suðurströndinni.

Magn gosefna úr gosinu 1362 olli því að byggð við rætur Öræfajökuls, sem nefndist Litla-Hérað, lagðist í algjöra eyði. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær byggð hófst að nýju á svæðinu og þá undir öðru nafni, Öræfi eða Öræfasveit. Tilgátur hafa komið fram um að allt að 250 til 400 manns hafi farist í gosinu 1362 og er gosið því líklega með mannskæðustu gosum Íslands, ásamt stóru flæðigosunum í Lakagígum og ef til vill í Eldgjá.

Fjallað er um gosið 1362 í Oddverjaannál sem segir: „Eldsuppkoma í Litla-Héraði og eyddi allt héraðið. Höfðu þar áður verið 70 bæir. Lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall.“ Í þessari heimild kemur skýrt fram hve mikil manntjónið og eyðileggingin var því aðeins tvær lifandi verur lifðu af; gömul kona og hryssa.

Þar sem Öræfajökull er megineldstöð undir jökli má reina með að jökulhlaup fylgi eldgosunum. Almannavarnir meta það svo að hætta vegna jökulhlaupa frá Öræfajökli sé mikil á um 340 km2 svæði. Það tæki að lágmarki 35–40 mínútur að rýma svæðið til fulls, en framrásartími hlaupa frá jöklinum er þó mögulega ekki nema um 20–30 mínútur. Vöktun við Öræfajökul hefur verið bætt undanfarin ár, einkum eftir að skjálftavirkni jókst í eldstöðinni 2017, viðbragðsáætlanir liggja fyrir en mestu skiptir að allir fyrirboðar um gos séu greindir rétt svo unnt verði að rýma svæðið áður en gos hæfist í Öræfajökli.
Jarðlagaopna eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Öræfajökull er talinn með tignarlegri fjöllum landsins. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Sethólar eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Algengt er að ský hylji Öræfajökul og hæstu tindana. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Ítarefni

Almannavarnir. 2017. Öræfajökull. Sótt 27. ágúst 2020 af https://www.almannavarnir.is/forsidubox/oraefajokull/?fbclid=IwAR3ipOkQy0uP2nSEfZO6a9YmmItjNAVITdtD3wd5uCvpzs5-5FevVMOiKbQ

Ármann Höskuldsson. 2013. Gjóskustraumar. Bls. 144–146 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Viðlagatrygging Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Ármann Höskuldsson. 2019. Öræfajökull. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 25. ágúst 2020 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=ORA#

Magnús T. Guðmundsson, Guðrún Larsen, Ármann Höskuldsson & Ágúst Gunnar Gylfason. 2008. Volcanic hazards in Iceland. Jökull 58. 251–268.

Magnús T. Guðmundsson, Þorvaldur Þórðarson, Guðrún Larsen, Páll Einarsson, Ármann Höskuldsson & Páll Imsland. 2013. Undir Vatnajökli. Bls. 263–277 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Viðlagatrygging Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Sigurður Þórarinsson. 1958. The Öræfajökull eruption of 1362. Acta Naturalia Islandica II(2). Sótt 25. ágúst 2020 af http://utgafa.ni.is/Acta-Naturalia-Islandica/Acta-Naturalia-Islandica-II-2.pdf