Þeistareykir. Ljósm. Helgi Arnar Alfreðsson.

Þeistareykir

Þeistareykir eru eyðijörð á Reykjaheiði norðan Mývatns en þar er einnig samnefnt eldstöðvakerfi sem liggur frá Mývatnssveit og norður í Öxarfjörð. Kerfið er um 70–80 km langt og allt að 15 km breitt, það tilheyrir Norðurgosbeltinu og er nyrsta eldstöðvakerfi Íslands. Megineldstöð Þeistareykja er vanþróuð og fer lítið fyrir henni, helstu ummerki hennar eru kísilríkt berg og háhitasvæði. Á svæðinu er 90 MW jarðvarmavirkjun sem var gangsett 2017.

Þeistareykir eru merktir með rauðum punkti á kortið (kortagrunnur frá Landmælingum Íslands).

Loftmynd af Þeistareykjasvæðinu. Hásléttan er flatlend en í suðri má sjá móbergsstapa og austan við hann er Þeistareykjabunga og toppgígurinn Stóra-Víti. (Loftmynd frá Loftmyndir ehf.)

Þeistareykir eru háhitasvæði og þar má sjá mikil ummerki jarðhita á yfirborði svæðisins. Ljósm. Jón Ingi Cæsarsson.

Þeistareykjakerfið er á hásléttu 300–400 m h.y.s., flátlent og slétt með hraunskildum og móbergsstöpum inn á milli sem sumir ná upp í 800 m h.y.s. Jarðskjálftavirkni er þó nokkur á svæðinu en Tjörnesþverbrotabeltið tengist Norðurgosbeltinu í gegnum Þeistareyki. Gjár og misgengi eru því algeng á sprungusveim eldstöðvakerfisins.

Eftir að Þeistareykjarsvæðið varð íslaust við lok síðasta jökulskeiðs jókst eldvirkni mjög í eldstöðvakerfinu. Þessi aukning varð fyrir um 15.000–10.000 árum síðan og hefur hún verið tengd við þrýstilétti sem átti sér stað þegar jöklar hörfuðu af svæðinu.

 

Eldvirkni hefur verið lítil í eldstöðvakerfi Þeistareykja frá því snemma á nútíma, þ.e. síðustu 10.000 ár, en síðast gaus í kerfinu fyrir um 2.400 árum. Hins vegar nær gossaga Þeistareykja yfir um 200.000 ár. Á nútíma hafa eldgos í Þeistareykjum einkennst af dyngjugosum, sem eru alla jafna risastór flæðigos þar sem kvikan kemur upp um eitt gosop og sprengivirkni er minniháttar. Dyngjugosin komu upp um megingosop eldstöðvakerfisins og mynduðu umfangsmikla hraunskildi, eða dyngjur. Eldri hraunskildirnir eru frá 12.000–15.000 árum síðan, þeir urðu til í tiltölulega litlum dyngjugosum og eru úr píkríti.  Fyrir 10.000–12.000 árum mynduðust stærri hraunskildir sem ná allt að 30 km3 í rúmmáli og eru þeir úr ólivínbasalti.

Fyrir um 11.000–12.000 árum myndaðist dyngjan Þeistareykjarbunga í stærsta þekkta gosinu úr eldstöðvakerfi Þeistareykja. Eldgosið átti upptök sín í Stóra-Víti sem er toppgígur Þeistareykjarbungu. Rúmmál dyngjunnar er um 30 km3 og rann hraunið 25 km frá upptökunum.

Jarðvarmavirkjunin á Þeistareykjum er staðsett við rætur Bæjarfjalls. Ljósm. Jón Ingi Cæsarsson.

Þeistareykjahraun er að mestu nokkuð slétt helluhraun með uppbrotnum rishólum og niðurföllum á víð og dreif. Hraunbunga rís hægra megin á myndinni. Ljósm. Daníel Freyr Jónsson. 

Undir sléttu helluhrauni Þeistareykjahrauns leynast hraunhellar sem vegna virkjunarframkvæmda og vegalagningar eru allt í einu komnir í alfaraleið. Þekktur var svonefndur Togarahellir sem fannst á sjöunda áratug síðustu aldar og uppúr aldamótum fundust einir tíu hellar til viðbótar. Á árinu 2016 fundust svo enn þrír hellar og voru tveir þeirra ósnortnir og heillegir, ríkulega skreyttir glerungi, dropsteinum og hraunstráum. Meginrásir hellanna eru nokkur hundruð metra langar og tengjast hugsanlega, en unnið er að könnun þeirra og kortlagningu og búist er við að fleiri hellar finnist á svipuðum slóðum. Umhverfisstofnun lokaði öllum opum að þessum hellum haustið 2020, en áður hafði öll almenn umferð um hella á Þeistareykjum verið bönnuð, nema um Togarahelli. Hraunhellar eru fágætar jarðminjar á heimsvísu og hafa mikið verndargildi sökum sérstöðu og fágætis. Allir dropsteinar og sérhvert hraunstrá í hellum landsins voru friðlýst sem náttúruvætti 1974 og hraunhellar njóta sérstakrar verndar skv. náttúruverndarlögum.  

Dropsteinar í helli í Þeistareykjahrauni. Ljósm. Daníel Freyr Jónsson. 

Ítarefni

Bolani, F.L., Tibaldi, A., Pasquaré Mariotto, F., Saviano, D., Meloni, A. & Sajovitz, P. 2019. Geometry, oblique kinematics and extensional strain variation along a diverging plate boundary: The example of the northern Theistareykir Fissure Swarm, NE Iceland. Tectonophysics 756. 57–72.

Daníel Freyr Jónsson & Guðni Gunnarsson. 2020. Hraunhellar í Þeistareykjahrauni. Náttúrufræðingurinn 90(4–5). 296–302.

Maclennan, J., Jull, M., McKenzie, D., Slater, L. & Grönvold, K. 2002. The link between volcanism and deglaciation in Iceland. Geochemistry, Geophysics, Geosystems 3(11). 1–25.

Karl Grönvold & Kristján Sæmundsson. 2019. Þeistareykir. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 3. febrúar 2021 af http://islenskeldfjoll.is/?volcano=TEY.

Kristján Sæmundsson & Freysteinn Sigmundsson. 2013. Norðurgosbelti. Bls. 319–357 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Sigríður Magnúsdóttir & Bryndís Brandsdóttir. 2011. Tectonics of the Theistareykir fissure swarm. Jökull 61. 65–79.