Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.

Vestmannaeyjar. Ljósm. Hlynur Bergvin Gunnarsson.

Vestmannaeyjar

Vestmannaeyjar er eyjaklasi suður af Íslandi og tilheyrir samnefndu eldstöðvakerfi. Í klasanum eru um 15 eyjar og 30 sker. Eldstöðvakerfið er 30–35 km langt og 20–25 km breitt, um 10–30 km úti fyrir suðurströnd landsins. Kerfið tilheyrir Austurgosbeltinu þar sem það teygir sig til suðurs og út í sjó. Í eldstöðvakerfi Vestmannaeyja er hvorki fullmótuð megineldstöð né sprungusveimur. Talið er að eldvirkni hafi byrjað á þessum slóðum fyrir 70–120 þúsund árum og hafa allmiklar rannsóknir farið fram á eldstöðvakerfi Vestmannaeyja og hafsbotninum í kring.

Vestmannaeyjar eru merktar með rauðum punkti á kortið.

Vestmannaeyjar. Lega eyjaklasans sést vel úr lofti, en hann liggur í sömu stefnu og Austurgosbeltið gerir uppi á landi, SV_NA. (Sentinel-2 gervitunglamynd frá COPERNICUS EU).

Surtseyjargosið 1963–1967 tilheyrir eldstöðvakerfi Vestmannaeyja og er það þekkt sem fyrsta gos sinnar tegundar sem vísindamenn gátu fylgst með. Gosið varð sýnilegt 14. nóvember 1963 á 128 m dýpi. Vegna þess að gosið var á sjávarbotni fylgdi því mikil sprengivirkni þegar heit kvikan komst í snertingu við kaldan sjóinn. Þessi gerð af eldgosi kallast tætigos eða Surtseysk eldgos (e. Surtseyan eruption), kennt við Surtsey og eldvirknina sem fylgdi þegar eyjan myndaðist. Sprengivirkninni lauk 4. apríl 1964 og höfðu þá tveir gígar myndast. Þá náði eyjan hæst 174 m yfir sjávarmál og hafði náð þeirri stærð að áhrif sjávar hömluðu ekki lengur gosvirkninni. Þá hófst kvikustrókavirkni og flæðigos og við það hlóðst upp hraundyngja fram til 17. maí 1965. Síðasti fasi gossins tók við 19. ágúst 1966 með flæðigosi sem lauk 5. júní 1967.

Á tímum Surtseyjargosins hafði flekakenningin ekki náð almennri viðurkenningu, en síðar kom í ljós að gosið renndi stoðum undir kenninguna þar sem Surtsey markar enda gosbeltis sem sækir til suðurs. Einnig jók eldgosið skilning á myndun móbergs og sannaði í reynd stapakenninguna sem Guðmundur Kjartanson jarðfræðingur setti fram árið 1943. Með gosinu var staðfest að myndun móbergs úr gosgleri er hraðvirkt ferli og að líta má á hana sem hluta af sjálfu eldgosinu.

Kjarnar hafa verið boraðir í Surtsey til að rannsaka móbergið og þá ummyndun sem á sér stað þegar það myndast. Fyrsti borkjarninn var tekinn árið 1979 en 2017 var sett á laggirnar fjölþjóðlegt rannsóknarverkefni í Surtsey í því skyni að taka tvo borkjarna í eyjunni. Með þessari rannsókn var innri bygging eyjarinnar skoðuð sem og þróun jarðhitans. Í Surtsey er einstakt tækifæri til að fylgjast með þróun og ágang sjávarrofs sem og landnámi lífvera. Náttúrufræðistofnun Íslands sér um árlegar rannsóknarferðir í eyjuna, sem er friðuð og engum heimilt að stíga þar á land án sérstaks leyfis Umhverfisstofnunar.

Surtsey séð úr lofti. Ljósm. Jeffrey Hapeman.

Hraunið frá Heimaeyjargosinu eyðilagði um 400 hús þar sem það rann inn í bæinn. Ljósm. Jón Ingi Cæsarsson.

Eldfell er gjallgígur á Heimaey, sem er stærsta eyjan í klasanum. Eldfell er rúmlega 200 m hátt og myndaðist í einu eldgosi, Heimaeyjargosinu sem hófst 23. janúar 1973 og lauk rúmum fimm mánuðum seinna, 3. júlí sama ár. Eldgosið kom heimamönnum alveg að óvörum og þurfti að flytja um 5.300 íbúa burt af eyjunni í skyndingu. Eldgosið var dæmigert sprungugos sem olli því að talsvert hraun rann um eyjuna. Um þriðjungur húsa í bænum eyðilagðist, eða um 400 hús, bæði af völdum hrauns og gjóskufalls. Eftir að eldgosið hafði varað í um þrjár vikur hafði gjallgígurinn Eldfell myndast. Þegar eldgosinu lauk hafði myndast um 2,2 km2 af nýju landi við Heimaey.

Lífæð Vestmannaeyja, Friðarhöfninni, stafaði töluverð hætta af hraunrennslinu. Höfnin er mjög mikilvæg fyrir atvinnulíf Eyjamanna sem byggist á útgerð og fiskvinnslu, en einnig fyrir öryggi bæjarbúa. Var gripið til þess ráðs að dæla sjó á hraunið til að hægja á ferð þess og flýta fyrir storknun. Þannig tókst að bjarga um 200 húsum og höfninni sjálfri, sem hefði ella getað lokast. Mikið hreinsunarstarf var unnið eftir að gosi lauk og fluttu flestir íbúanna til baka. Gosminjasýningin Eldheimar var sett upp 40 árum eftir Heimaeyjargosið þar sem þessu óvænta gosi og atburðarrásinni eru gerð skil. Á sýningunni er m.a. hús sem grafið var upp úr gjóskunni sem lagðist yfir stóran hluta bæjarins.

Gígarnir Eldfell og Helgafell rísa tignarlega yfir Vestmannaeyjabæ. Ljósm. Kristín Sigurgeirsdóttir.

Horft til Vestmannaeyja. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Ítarefni

Ármann Höskuldsson. 2019. Vestmannaeyjar. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 30.9.2020 af http://islenskeldfjoll.is/?volcano=VES#.

Ármann Höskuldsson, Einar Kjartansson, Árni Þór Vésteinsson, Sigurður Steinþórsson & Oddur Sigurðsson. 2013. Eldstöðvar í sjó. Bls. 403–425 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Eldheimar. Um Eldheima. Sótt 6.10.2020 af http://eldheimar.is/about-museum/.

International Continental Scientific Drilling Program. Surtsey Volcano Drilling Project. Sótt 6.10.2020 af https://www.icdp-online.org/projects/world/europe/surtsey/.

Sveinn P. Jakobsson. 1978. Environmental factors controlling the palagonitization of the Surtsey tephra, Iceland. Bulletin of the Geological Society of Denmark 27. 91–105.

Trausti Einarsson. 1970. Yfirlit yfir jarðsögu Vestmannaeyja. Náttúrufræðingurinn 40. 97–144. Sótt 1.10.2020 af https://timarit.is/page/4270348#page/n0/mode/2up.