Auðnutittlingur (Carduelis flammea)


Útlit og atferli

Auðnutittlingur er lítill og grábrúnn stélstuttur spörfugl af finkuætt. Rauður blettur á enni og svartur á kverk eru einkennandi. Hann hefur dökkar rákir á síðum, dauf vængbelti og grunnsýlt stél. Síðla vetrar og á vorin verður karlfuglinn bleikur eða rauðleitur á bringu og gumpi. Ungfuglar eru í fyrstu brúnflikróttir, án rauða blettsins á enni, en fá fullan búning í ágúst. Goggur er keilulaga, stuttur og gulur finkugoggur með svartan brodd. Fætur eru dökkbrúnir og augu brún.

Auðnutittlingur flýgur í léttum bylgjum. Hann er kvikur og fimur þegar hann leitar sér ætis í trjám og öðrum gróðri. Er oftast í litlum hópum utan varptíma en þeir geta þó orðið allstórir. Gefur frá sér gjallandi kvein eða dillandi, langdreginn söng.

 

Lífshættir

Auðnutittlingur er frææta, sem byggir tilveru sína á birkifræi. Hann tekur einnig fræ njóla, baldursbrár og fleiri villijurta. Auðnutittlingurinn hefur nýlega komist uppá lag með að ná fræi úr greni- og furukönglum, hann gæti hafa lært það af krossnefnum? Auðnutittlingur fæðir ungana í hreiðrinu og fyrst eftir að þeir yfirgefa það á dýrafæðu; skordýrum og köngulóm. Auðnutittlingar eru algengir á fóðurbrettum í görðum þar sem fræ er gefið og er sólblómafræ eitt besta fóðrið fyrir þá.

 

Auðnutittlingur á Selfossi

Auðnutittlingur etur birkifræ á Selfossi.

Auðnutittlingur etur birkifræ á Selfossi.

Auðnutittlingar á fóðrara á Selfossi. Fóðrið er sólblómafræ með hýði.

Auðnutittlingar á fóðrara í Seljahverfi. Fóðrið er hýðislaust sólblómafræ.

Kjörlendi er birkiskógar og kjarr, auk þess ræktað skóglendi og garðar. Hann gerir sér hreiður í trjám og runnum. Það er lítil, vönduð karfa úr sinu og öðrum gróðri, fóðruð með hárum og fiðri. Urptin er 4–6 egg, þau klekjast á 10–12 dögum og ungarnir verða fleygir á 10–14 dögum. Verpur venjulega nokkrum sinnum á sumri.

 

Eitt af undrum náttúrunnar er, hvernig spörfuglar halda hreiðrinu hreinu, meðan ungarnir eru að vaxa úr grasi. Ungarnir æla dritinu í hvítum pokum, sem kallast dritsekkir. Foreldrarnir annaðhvort éta þá eða fljúga með þá burt.

Auðnutittlingshreiður í Lambhagahverfi, R. Kvenfuglinn með dritsekk.

Útbreiðsla og ferðir

Auðnutittlingurinn er staðfugl. Auðnutittlingsstofninn sveiflast nokkuð eftir árferði og því, hvernig birkifræ þroskast. Í góðu árferði er talið að hann sé um 30.000 pör. Hann hefur breiðst út í kjölfar aukinnar skógræktar, áður fyrr var hann bundinn við birkiskóga og var eini íslenski fuglinn sem varp undantekningalaust í trjám. Grænlenskir auðnutittlingar fara hér um vor og haust og hafa ef til vill vetursetu. Heimkynnin eru á breiðu belti um allt norðurhvelið.

 

Þjóðtrú og sagnir

Lítil þjóðtrú fylgir auðnutittlingnum. Þegar hann kom heim að bæjum í hópum var það fyrir slæmu veðri. Nafnið hefur líklega verið auðnatittlingur samkvæmt danskri frumútgáfu Ferðabókar Eggerts og Bjarna frá 1772, en hans er lítið getið í eldri heimildum.

Skyldar tegundir

Hrímtittlingur (Carduelis hornemanni) er varpfugl í nyrstu héruðum Evrópu, Norður-Ameríku og NV-Grænland. Grænlensku fuglarnir eru taldir vera sérstök undirtegund. – Hrímtittlingar hafa verið fremur sjaldséðir hér á landi, en mjög líklegt er að þeir komi hingað reglulega en þeir eru mjög líkir auðnutittlingum og er örugg greining torveld. Hann er þó mun ljósari; gumpur, undirstélþökur og síður nær hvít og lítið sem ekkert rákótt.

Hrímtittlingur á Selfossi í apríl.

Nýfleygur auðnutittlingsungi í Þrastaskógi.

Auðnutittlingskarl á Selfossi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson