Barrfinkukarl að næra sig á barrfræi.

Barrfinka (Spinus spinus)

Með aukinni skógrækt hefur þeim skógarfuglum fjölgað, sem hafa orpið hér. Fuglaskoðun hefur og aukist og grannt er fylgst með mörgum trjáræktarreitum, þar sem sjaldgæfir fuglar hafa reynt varp. Hin torsótta farleið til og frá landinu, 800 km yfir opið haf, veldur því m.a. að litlir stofnar farfugla eiga erfitt uppdráttar. Það eru vafalaust mikil afföll í hafi af þeim fuglum sem ekki geta sest á sjó til að hvíla sig, eins og spörfuglum og smávöxnum vaðfuglum, enda eru stofnar gamalgróinna íslenskra farfugla í smærri kantinum stórir og sterkir og þola því nokkur afföll. Þeir fuglar sem hafa numið hér land undanfarin hundrað ár eða svo og eru jafnframt farfuglar, eru aðallega sundfuglar og geta sest á sjó. En flestir landnemar eru staðfuglar.

Útlit og atferli

Barrfinka líkist auðnutittlingi, karlfuglinn er skrautlegur, grængulur með svarta kollhettu, gul vængbelti í dökkum vængjum og gula stélreiti, kvenfuglinn er litdaufari en þó með svipað væng- og stélmynstur. Ungfuglar líkjast kvenfugli. Goggur er dökkur eða gráleitur, fætur sömuleiðis.

Barrfinkukarl.

Barrfinkukerla í sólblómafræi á Selfossi.

Lífshættir

Barrfinkan gerir sér hreiður í trjám, það er fínlega ofið og fóðrað, svipað og hjá auðnutittlingi. Eggin eru 3-5, kvenfuglinn klekur þeim á 12-13 dögum og verða ungarnir fleygir á 13-15 dögum. Varptíminn í Evrópu er frá því í mars fram í ágúst og ræðst hann af fæðuframboði. Fæða barrfinku er einkum fræ af barrtrjám, en hún tekur einnig önnur fræ, svo og brum og skordýr. Barrfinkur eiga það til að koma í fóður þar sem fuglum er gefið, einkanlega sólblómafræ.

Útbreiðsla og stofnstærð

Barrfinka var lengi árlegur flækingur sem sást á haustin, frá miðjum september fram eftir október og á vorin, frá apríllokum fram í júní. Barrfinkur urpu í grenilundum á Suðurlandi 1994-1997 og aftur 2001. Haustið 2007 komu óvenjumargar barrfinkur til landsins, lítið bar þó á þeim um veturinn, en sumarið 2008 urpu þær víða um sunnan og austanvert landið. Síðan er vitað um eitt eða örfá varptilvik á hverju ári og er barrfinkan líklega orðinn reglulegur varpfugl hér á landi, einkum í barrskógum og lundum á Suður- og Suðvesturlandi, m.a. í Reykjavík og nágrenni, en hún hefur einnig fundist á Norður- og Austurlandi. Talið er að barrfinkan sé staðfugl hér, en hún er farfugl á norðlægum slóðum og hafa þeir fuglar sem hingað rata vafalaust lent í hrakningum á farflugi. Barrfinkur eiga einnig til að leggjast á flakk, ef lítið er um fæðu, eins og títt er með krossnef og silkitoppu. Annars er barrfinkan varpfugl í barrskógum Evrópu og Austur-Asíu, en eyða er í útbreiðslunni um miðbik síðarnefndu álfunnar.

Barrfinkupar á fóðurstauki, kerlan til vinstri, karlinn til hægri.

Barrfinkukarl á fóðurstauki.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson