Duggönd (Aythya marila)
Útlit og atferli
Duggöndin er meðalstór kafönd og svipar til skúfandar. Í fjarska virðist karlfuglinn, steggurinn, dökkur að framan og aftan en ljós þess á milli. Höfuðið er svart og grængljáandi, bringan svört, síður og kviður hvít. Bak, axlafjaðrir og framvængir eru gráyrjótt, vængbelti hvít, gumpur og undirstélþökur svört, stél grábrúnt. Í felubúningi er steggur grár á síðum og móskulegur. Kvenfuglinn, kollan, er dökkbrún á höfði, hálsi, bringu, baki og axlafjöðrum, oft með gráum yrjum. Afturendinn er dökkgrár, síður gulbrúnflikróttar, kviður hvítur. Hvít vængbelti eru á dökkbrúnum yfirvæng, hvít blesa við goggrót. Á varptíma er einnig ljós blettur á hlustarþökum. Ungfugli svipar til kollu en er jafndekkri og með ljósari vanga. Bæði kyn hafa ljósa undirvængi.
Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá þá svonefndan felubúning, sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi um haustið, eftir að þeir verða fleygir að nýju.
Goggur beggja kynja er blágrár með svartri nögl, fætur einnig blágráir með dekkri fitjum. Augu fullorðinna eru skærgul en brún á ungfugli. Duggöndin gefur frá sér lágt kurr en er oftast þögul.
Duggönd er félagslynd á öllum árstímum. Hún flýgur hratt með hröðum vængjatökum, er djúpsynd og fimur kafari en þung til flugs og hleypur á vatni í flugtaki eins og aðrar kafendur. Hún er best greind frá skúfönd á stærð og hnöttóttara höfði, steggur á ljósu baki, kolla á ljósari lit og stærri og ljósari flekkjum á höfði.
Duggandarkolla með stóra dúnunga á Laxá í Mývatnssveit.
Duggandarhreiður við Reykjavíkurtjörn.
Lífshættir
Duggönd er dýraæta sem kafar til botns eftir smádýrum, t.d. mýlirfum, krabbadýrum, vatnabobbum og ertuskeljum. Lifir jafnframt nokkuð á grænþörungum og nykrum, sem og hornsílum.
Hún heldur sig við vötn og tjarnir bæði á hálendi og láglendi. Duggönd velur sér hreiðurstæði nærri vatni, stundum í dreifðum byggðum og oft innan um hettumáf og kríu. Hreiðrið er vel falið í stör, runnum og öðrum gróðri. Urptin er 7-11 egg, eggin klekjast á um 4 vikum og ungarnir verða fleygir á um 6 vikum. Á veturna er hún helst á lygnum, lífríkum vogum eða sæmilega stórum vötnum nærri sjó.
Duggandarkolla með litla dúnunga á Mývatni.
Duggandarpar á Mývatni.
Útbreiðsla, stofnstærð
Duggönd er algengust við lífrík vötn á Norður-, Norðaustur- og Austurlandi, líka allalgeng sums staðar í miðhálendinu, en sjaldgæfust á Vestfjörðum. Stór hluti hans stofnsins er við Mývatn og sáust þar lengi um 2.000 steggir að vori og var hún þar algengust anda. Duggönd hefur fækkað mikið á Mývatni á síðustu árum og steggirnir aðeins verið 400−1.000 frá árinu 2010. Á móti hefur skúfönd fjölgað mikið á Mývatni og er þar nú algengasta öndin. Duggönd hefur fækkað á vetrarstöðvum í Evrópu og er þar á válista sem tegund í nokkurri hættu (VU), en á íslenska válistanum er hún talin í hættu (EN). Stofninn gæti verið að hámarki 3000 varppör. Vetrarstöðvarnar íslenskra fugla eru einkum með ströndum Írlands, Bretlands og Hollands, sem og víðar með ströndum meginlands Evrópu. Nokkur hundruð vetursetufugla halda til á Suðvesturlandi og jafnframt er hópur í Berufirði. Varpstöðvar eru á túndrubeltinu á norðurhveli jarðar.
Þjóðtrú og sagnir
Líkt og um flestar aðrar endur, fjallar íslensk þjóðtrú ekki mikið um duggöndina. Víða eru endur taldar veðurvitar og jafnvel að þær finni á sér eldsumbrot eða jarðhræringar. Þessu tóku menn eftir hjá Mývatnsöndum í Kröflueldum 1975-84.
Duggandarsteggir á flugi við Mývatn.
Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson