Fullorðinn dvergmáfur á Stokkseyri.

Dvergmáfur (Hydrocoloeus minutus)

Útlit og atferli

Dvergmáfur líkist hettumáfi en er mun minni. Fullorðnir fuglar eru með ljósgráan yfirvæng og svartan undirvæng með hvítum afturjaðri, vængir eru styttri og ávalari en á hettumáfi. Hann er með dökka hettu í sumarbúningi, á veturna með svartan koll og svartar hlustarþökur. Á sumrin bregður fyrir bleikum lit á kviði, sem hverfur á veturna. Ungfuglar eru með svarta bekki á baki og yfirvæng líkt og rita. Fætur eru rauðleitir og goggur dökkur.

Flýgur með hröðum vængjatökum, fluglag er oft reikult og ójafnt og minnir á fluglag kríu. Á fullorðnum fuglum bregður til skiptis fyrir ljósgráum yfirvæng og svörtum undirvæng, þetta einkenni sést oft á löngu færi.

Ársgamall dvergmáfur á Bakkatjörn, Seltjarnarnesi.

Ársgamall dvergmáfur á Bakkatjörn, Seltjarnarnesi.

Lífshættir

Þeir dvergmáfar sem hafa fundist í varpi hér hafa undantekningalaust verið í hettumáfsvörpum í votlendi, mýrum eða jöðrum stöðuvatna og tjarna. Eggin eru 2-3, þau klekjast á þremur vikum og ungarnir verða fleygir á um fjórum vikum. Dvergmáfurinn er dýraæta og veiðir gjarnan á flugi yfir vatni, svipað og þernur.

Útbreiðsla og ferðir

Dvergmáfur er árviss hérlendis og fer honum fjölgandi, er það er í samræmi við útbreiðsluaukningu hans til vesturs á síðustu áratugum, hann verpur nú m.a. í Svíþjóð, Noregi (fyrst 1976), Írlandi og Skotlandi. Hefðbundnar varpstöðvar hans eru annars frá Eystrasalti og gloppótt austur um Evrópu og Asíu allt að Kyrrahafi. Auk þess verpur hann í Hollandi og eitthvað við vötnin miklu og Hudsonflóa í Kanada og víðar í N-Ameríku. Amerísku vörp eru þó stopul og er uppruni fuglanna óviss.

Hérlendis sést hann á öllum tímum árs, einna helst snemma sumars, í maí og júní, í hettumáfsvörpum. Hann hefur sést í öllum landshlutum, oftast þó við Faxaflóa, í Þingeyjarsýslum og á Höfn. Dvergmáfar hafa sést næstum árlega í hettumáfsvörpum á varptíma í Mývatnssveit frá 2003. Par kom upp tveimur ungum 2008 og hreiður fannst 2011. Hann verpur þar sennilega árlega. Síðan hefur varp verið staðfest víðar í Þingeyjarsýslum og á Snæfellsnesi. Utan varptíma sést hann gjarnan við strandvötn eða í fjörum. Það bendir því margt til þess að dvergmáfur fari senn að teljast til fullgildra íslenskra varpfugla.

Fullorðinn dvergmáfur á Stokkseyri.

Fullorðinn og ársgamall dvergmáfur á Stokkseyri.

Ársgamall dvergmáfur á Stokkseyri.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson