Eyrugla (Asio otus)


Eyruglan er ánægjuleg viðbót við fátæklega íslenska uglufánu. Ástæðan fyrir fáum tegundum af ættbálki ugla (Strigiformes) hér á landi, miðað við grannlöndin, er fábreytt nagdýrafána, en nagdýr eru aðalfæða flestra ugla.

Útlit og atferli

Eyruglan er meðalstór ugla, náskyld og mjög lík branduglu. Hún er auðgreind á löngum fjaðraeyrum sem sjást aðeins þegar fuglinn situr. Eyrun hafa ekkert með heyrn fuglsins að gera. Andlitið er kringlóttara en á branduglu og fjaðrakransar rauðgulir. Augun eru appelsínugul, ekki gul eins og í branduglu. Rákóttir vængbroddar eru neðan á vængjum á eyruglu en þeir eru svartir á branduglu; vængbroddarnir og rákóttur kviður aðgreinir fuglana á flugi. Annars er eyruglan í felulitum og fellur vel inn í umhverfi sitt þegar hún situr á trjágrein.

Eyrugla á flugi á óðali sínu.

Eyrugla á óðali sínu.

Lífshættir

Eyrugla er skógarfugl, hún notar oftast gömul hreiður frá öðrum fuglum eins og skjóum, krákum og hröfnum. Hér á landi verpa uglurnar líklega mest á jörðu niðri, þar sem þær hafa ekki aðgang að hreiðrum fyrrnefndra fugla. Þær hafa einnig orpið í tilbúnar hreiðurkörfur sem settar hafa verið upp fyrir þær. Hvor tveggja er þekkt erlendis. Þá hafa þær líka orpið í gjárveggjum. Eggin eru oftast 4–6 og útungunartími er 25–30 dagar. Ungarnir verða fleygir á um 5 vikum. Karlarnir helga sér óðal í mars og er aðalvarptíminn um mánaðamótin apríl-maí. Aðalfæða eyrugla er hagamýs, en þær taka einnig smáfugla og fuglsunga. Eyruglan er meiri náttfugl en brandugla.

Sameiginlegur hvíldarstaður (e. roost) á veturna er eitt af sérkennum eyruglu, en slíkt tíðkast ekki hjá öðrum uglum sem sofa langoftast stakar. Hér á landi hafa fundist slíkir hvíldarstaðir og voru til dæmis á annan tug eyrugla í einu tré í Grasagarðinum í Laugardal fyrir nokkrum árum. Uglur sofa aðallega á daginn og því er ekki hægt að tala um náttstaði eins og hjá flestum fuglum.

Eyrugla á hvíldarstað í fjárhúsi í Grafningi. Hún hélt þar til allan veturinn.

Eyrugla sem gerði sér hreiður í gjárvegg.

Eyrugla með aðalbráð sína, hagamús.

Landnám

Fram undir síðustu aldamót var eyruglan nær árviss gestur eða hrakningsfugl hér á landi, aðallega að haust- og vetrarlagi, oftast í nóvember og desember og um land allt. Fyrsta varpið var staðfest árið 2003, þegar Morgunblaðið birti mynd á baksíðu af ugluunga sem sagður var brandugla. Glöggir menn sáu strax að fuglinn var með appelsínugul augu en ekki gul og hlaut því að vera eyrugluungi. Myndin var tekin við sumarbústað á Suðurlandi. Að sögn heimafólks hafði uglan líklega orpið þarna í um þrjú ár, en óljósar fregnir höfðu verið um eyrugluvarp á þessum slóðum frá því rétt fyrir aldamótin.

Stopult hefur verið fylgst með landnámi eyruglunnar, en einhver varptilvik hafa þó verið staðfest flest ár. Árið 2011 var gert átak í að kanna varp eyruglu og fundust þá 5 eða 6 pör með unga. Sumarið 2010 fannst ungi í Aðaldal og er það í eina þekkta varpið utan Suður- og Suðvesturlands. Árið 2018 hóf Gunnar Þór Hallgrímsson, fuglafræðingur, rannsókn á íslenskum uglum og eru upplýsingarnar hér að hluta til fengnar frá honum. Vorið 2019 fundust 11 eyrugluóðul og var orpið á 9 þeirra. Öll voru á Suðurlandi nema eitt á Innnesjum. Fremur brösuglega gekk hjá uglunum að koma ungum á legg, væntanlega vegna þurrka, og áttu margir fuglar erfitt með að ná í æti þess vegna. Árið 2018 var einnig afkomubrestur hjá eyruglum og hann þá rakinn til mikilla rigninga um sumarið.

Þó svo að eyruglan sé mun laumulegri en branduglan er auðveldast að staðfesta varp hennar með því að hlusta vel eftir henni á síðkvöldum; síðla vetrar tilkynna karlarnir yfirráð sín yfir óðulum með söng: úhh – úhh – úhh. Hljóðið sem stálpaðir ungar gefa frá sér þegar þeir betla mat er áberandi, sérstaklega þegar foreldrarnir eru nærri. Minnir það afar mikið á lóukvak en er málmkenndara. Þetta kvak þeirra heyrist mest á síðkvöldum eftir miðjan júní.

 

Eyrugluungi. Hann er fullvaxinn, en ekki enn að fullu fiðraður og vantar enn fjaðraeyrun.

Eyrugla er á válista Náttúrufræðistofnunar sem tegund í nokkurri hættu (VU). Tökustaðir ljósmynda eru ekki gefnir upp af verndarástæðum, en þær eru allar teknar á Suðurlandi.

 

Útbreiðsla og stofnstærð

Eyruglan er útbreiddur varpfugl um allt norðurhvel jarðar: um miðbik N-Ameríku, Evrópu og N-Afríku austur um alla Asíu. Hún er staðfugl nema nyrst og líklega eru íslensku eyruglurnar staðfuglar eða að hluta til farfuglar eins og raunin er um branduglu. Þeirri spurningu og fleirum verður væntanlega svarað á næstu árum. Stofninn gæti verið 50–100 fuglar.

Eyrugla á flugi á óðali sínu.

Texti: Jóhann Óli Hilmarsson. Myndir: Jóhann Óli og Alex Máni Guðríðarson.