Tveggja ára fjallkjói á Skjálfanda.

Fjallkjói (Stercorarius longicaudus)

Fjallkjói líkist ljósum kjóa, en er minni og nettari, með afar langar miðfjaðrir í stéli. Bak og yfirvængir eru grábrún, ljósari en á ljósum kjóa, vængendar dökkir, án hvítra vængskella kjóans. Svört kollhetta sker sig greinilega frá annars ljósu höfði, hálsi og bringu. Dökkt litarafbrigði er afar fátítt. Ungar eru svipaðir kjóum. Ískjói er annar hánorrænn kjói sem fer hér um bæði vor og haust á leið milli varpstöðva á túndrunni allt í kringum N-Íshafið og vetrarstöðva suður í höfum. Ískjói er heldur stærri og þreknari en kjói, minnir jafnvel á skúm á flugi og eru miðfjaðrir stéls langar, undnar og með ávalan enda.

Ískjói við Hafnarberg hjá Þorlákshöfn.

Fullorðinn fjallkjói á varpstað á Norðurlandi.

Lífshættir

Kjörfæða fjallkjóa í upprunalegum heimskynnum sínum eru læmingjar. Hér lifir hann á svipaðri fæðu og kjóinn, smáum fuglum, fuglsungum, eggjum, skordýrum og berjum. Sjálfsagt hagamúsum líka. Fjallkjói hefur þó ekki orðið uppvís af því að ræna aðra fugla æti eins og kjóinn.

Varpkjörlendi fjallkjóa hér á landi er mólendi fjarri sjó. Eggin eru tvö, þau klekjast á 24 dögum og ungarnir verða fleygir á 25-30 dögum. Varptíminn er í júní og flugtími unga seinni partinn í júlí eða byrjun ágúst.

Fullorðinn fjallkjói á varpstað á Norðurlandi.

Fullorðinn fjallkjói á varpstað á Norðurlandi.

Útbreiðsla og stofnstærð

Hánorrænn fugl sem fer hér um vor og haust á leið milli varpstöðva og vetrarstöðva. Fjallkjói sést frá byrjun maí fram í miðjan október, tíðastur um mánaðamótin maí/júní og í ágúst, hefur fundist um allt land sem og á hafinu umhverfis. Varp var staðfest á Norðurlandi 2003, en fuglar höfðu sést þar um árabil og lék sterkur grunur um varp. Þeir hafa orpið þar síðan og hafa einnig fundist verpandi á Strandahálendinu.

Fjallkjói sést oftar inn til landsins en ískjói, jafnvel í miðhálendinu og gætu það ef til vill verið varpfuglar á ferð. Fjallkjói verpur aðallega á freðmýrabeltinu allt í kringum norðurskautið og hefur meiri útbreiðslu en ískjói. Næst okkur verpa fjallkjóar á Grænlandi og upp til fjalla í Skandinavíu. Stofninn sveiflast þar í takt við hinar þekktu sveiflur í læmingjastofninum. Vetrarstöðvar fjallkjóa eru m.a. í sunnanverðu Atlantshafi og Suður-Íshafi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson