Fjöruspói (Numenius arquata)

Útlit og atferli

Fjöruspói er líkur spóa en töluvert stærri, goggurinn er lengri og höfuðrákirnar vantar. Gumpur er hvítur eins og á spóa. Ungfuglar þekkjast á styttra goggi og hreinni búningi. Kvenfuglar eru með ívið lengri gogg en karlfuglar. Fluglag og hljóð minna á máfa og hann er venjulega styggari en spói.

Ungur fjöruspói í Garði á Rosmhvalanesi.

Fullorðinn fjöruspói í Óman.

Lífshættir

Fjöruspói verpur í barrskógabeltinu í opnu landi, mýrum og ræktarlandi með ám, einnig við sjávarsíðuna, bæði í votu og fremur þurru landi. Hann verpur 4 eggjum í opið hreiður, útungunin tekur um 4 vikur og ungarnir verða fleygir á 5 vikum. Hér sést fjöruspói aðallega í þangfjörum en einnig á leirum.

Útbreiðsla, landnám og stofnstærð

Vetrargestur og strjáll varpfugl. Fjöruspói er vetrargestur á Rosmhvalanesi og þá aðallega í Sandgerði, í Skarðsfirði í Nesjum og við Höfn, á Eyrum og í Grunnafirði, þó hann sjáist víðar. Þetta eru oft 10-20 fugla hópar, en færri á Eyrum. Varp var fyrst staðfest á Melrakkasléttu árið 1987. Fjöruspói hefur síðan fundist verpandi í Nesjum, á Rosmhvalanesi og fuglar með varpatferli hafa sést við Eyrarbakka, Reykhóla á Barðaströnd og víðar. Hugsanlega tilheyra vetrarhóparnir innlendum varpstofni, sem sennilega verpa í sitthvorum landshlutanum. Tíminn mun leiða það í ljós. Fjöruspói er á válista sem tegund í bráðri hættu (CR). Hann er algengur varpfugl í opnu landi um stóran hluta Norður- og Mið-Evrópu og austur um Asíu. 

Fullorðinn fjöruspói á varpstöðvum á SA-landi.

Fullorðinn fjöruspói á varpstöðvum á SA-landi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson