Flórgoði (Podiceps auritus)


 

Útlit og atferli

Flórgoði er eini goðinn sem verpur á Íslandi. Hann minnir á smávaxna önd, en er þó líkari brúsum í háttum og útliti; auðþekktur á þríhyrndu höfði, mjóum hálsi sem hann teygir oft, og stuttu stéli. Í sumarbúningi virðist hann dökkur í fjarlægð, höfuðið er stórt og svartgljáandi með stórum gulum fjaðrabrúskum aftur frá augum, sem minnka þegar líður á sumarið. Háls og síður eru rauðbrún, bak og afturháls svartleit og kviðurinn hvítur. Yfirvængir eru dökkir með hvítum speglum. Kynin eru sviplík. Á veturna er hann dökkur að ofan en ljós að neðan, með svarta þríhyrnda kollhettu, dökkt bak og dökkkámugan afturháls og síður. Ungfugl er svipaður fullorðnum fugli í vetrarbúningi. Goggurinn er svartur og stuttur, fætur gráir með sundblöðkum á tánum. Hárauð augu sitja framarlega á höfðinu.

Um varptímann gefur hann frá sér sérkennileg hljóð, hvell og ískrandi.

Flórgoðahjón á Vestmannsvatni.

Ungur flórgoði í Mývatnssveit. Vetrarbúningur fullorðinna fugla er svipaður.

Flórgoði á erfitt með að hefja sig til flugs og flýgur sjaldan, en þegar hann er kominn á loft á hann auðvelt með flug, fæturnir skaga aftur fyrir stélið og höfðinu er haldið lágt. Hann er mikill sundfugl og góður kafari en þungur til gangs. Sefdans flórgoðans í tilhugalífinu er mikið sjónarspil. Hann ber ungana gjarnan á bakinu og fæðir þá fyrstu vikurnar. Félagslyndur, en helgar sér óðal í vörpunum. Getur verið árásargjarn, telji hann sér ógnað og jafnvel svo, að hann ræðst á mink, sem nálgast hreiðrið.

Flórgoði hefur sig til flugs með tilhlaupi á Vestmannsvatni.

Flórgoðahjón á góðri stundu við hálfbyggt hreiður á Vestmannsvatni.

Flórgoðar berjast um yfirráðasvæði í Mývatnssveit.

Flórgoði með stóran unga á bakinu í Mývatnssveit.

Lífshættir

Á sumrin er aðalfæða flórgoðans hornsíli, en einnig brunnklukkur, tjarnatítur, krabbadýr, mýlirfur og flugur. Á sjó er fæðan líklega mest smáfiskur og krabbadýr.  Flórgoðar eta talsvert eigið fiður og er það talið hjálpa upp á meltinguna. Láta sig stundum síga í vatnið, án þess að taka dýfu.

Flórgoði verpur við gróðursæl vötn og tjarnir, oft í dreifðum byggðum. Hreiðrið er fljótandi pallur, gerður úr rotnandi gróðri og festur við stöngla, oftast í breiðum af ljósastör, fergini eða öðrum vatnagróðri. Eggin eru 3–5, álegan er 22–25 dagar og ungarnir eru allt að tvo mánuði að verða fleygir. Á veturna sjást flórgoðar helst í skjólsælum víkum og vogum á sjó.

Flórgoðahjón dansa sefdans á Vestmannsvatni.

Flórgoði á flothreiðri á Vífilsstaðavatni. Þar hafa birkigreinar verið lagðar út, svo fuglinn eigi auðveldara með að festa fljótandi hreiðrið.

Flórgoðahjón fæða unga sína á hornsíli í Mývatnssveit.

Útbreiðsla og stofnstærð

Flórgoði var áður algengur varpfugl á láglendi í flestum landshlutum nema á Vestfjörðum. Honum fækkaði mikið upp úr 1950, vegna framræslu votlendis og landnáms minks að því að talið er. Góðu heilli er stofninn nú á uppleið aftur og er talinn vera um 1000 pör. Flórgoði er tíðastur í Skagafirði, Þingeyjarsýslum og á Héraði. Nærri helmingur stofnsins er í Mývatnssveit. Meirihlutinn hefur vetursetu á sjó í Norðvestur-Evrópu, kringum Bretlandseyjar og við Frakklandsstrendur; nokkrir tugir halda sig í Hvalfirði og víðar á Suðvesturlandi, svo og í Berufirði og víðar á Suðausturlandi, á veturna. Verpur í Skotlandi, Skandinavíu og síðan austur um Asíu og austanverða N-Ameríku.

Þjóðtrú og kvæði

Íslensk þjóðtrú hefur sneitt hjá flórgoðanum og sömuleiðis skáld, sem hafa ort um fugla. En gamalt heiti á honum er sefönd, áður fyrr hélt fólk hann vera önd.

Myndir og texti:  Jóhann Óli Hilmarsson.