Gargönd (Mareca strepera)


Útlit og atferli

Gargönd telst til buslanda. Hún er ívið minni og grennri en stokkönd en annars eru kollur þeirra mjög líkar. Steggur líkist kollu meira en hjá öðrum buslöndum. Hann er grár, brúnni á höfði og hálsi, með svartyrjótta bringu, brúnar axlafjaðrir, svartan afturenda og grátt stél. Kviður er hvítur. Í felubúningi verður steggur vart greindur frá kollu. Kollan minnir á stokkandarkollu en er grárri, minni og grennri, með hnöttóttara höfuð, og gogg og vængspegla í öðrum litum. Bæði kyn hafa hvíta spegla með svörtum jöðrum og ryðrauða bletti á vængþökum.

Goggur steggs er dökkgrár en í fjaðrafelli eins og á kollu og stundum vottar fyrir rauðgulum skoltröndum þess utan. Goggur kollu er með rauðgular skoltrendur og dökkan goggmæni. Fætur eru rauðgulir með gráar fitjar og augu dökk. Kolla gargar hátt en steggur er lágvær.

Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir á sumrin, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá þá svonefndan felubúning, sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Steggirnir hópa sig á stöðum þar sem er skjól og næg fæða, til að fella. Þeir skarta síðan skrúðbúningi um haustið, eftir að þeir verða fleygir að nýju.

Atferli er svipað og hjá stokkönd. Gargöndin leitar sér ætis með því að hálfkafa með bakhlutann upp í loft, aðeins með haus og háls undir yfirborði, eða hún tínir æti úr vatnsborði. Steggurinn yfirgefur kolluna meðan hún liggur á og safnast steggirnir í hópa til að fella flugfjaðrir. Gargöndin er hraðfleyg og einnig góður sundfugl, fremur felugjörn og lætur lítið á sér bera. Er í pörum eða smáhópum, venjulega innan um aðrar buslendur.

Gargandarhreiður í Suðurnesi á Seltjarnarnesi.

Gargandarkolla með unga á Reykjavíkurtjörn.

Lífshættir

Gargöndin er aðallega grasbítur, en étur einnig dýrafæðu. Tekur græna plöntuhluta nykra, grænþörunga, o.fl., einnig fræ, en uppistöðufæða unga og ungamæðra er úr dýraríkinu.

Heldur sig einkum í lífríkum starmýrum og við grunnar tjarnir og polla á láglendi. Verpur nærri vatni í þéttum gróðri, undir þúfum, runnum og háu grasi. Hreiðrið er dæld, fóðruð með sinu og dúni. Urptin er 8-12 egg og klekjast þau á 24-26 dögum. Ungarnir eru hreiðurfælnir, yfirgefa hreiðrið þegar þeir eru orðnir þurrir og leita sér ætis uppá eigin spýtur undir verndarvæng móðurinnar. Þeir verða fleygir á 45-50 dögum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Gargöndin er farfugl. Hún er algengust við Mývatn og Laxá, þar sem hún kallast litla-gráönd, en verpur annars strjált á góðum andastöðum um land allt, m.a. við Reykjavíkurtjörn og víðar á innnesjum. Stofninn er áætlaður 400-500 pör. Gargöndin er á válista sem tegund í yfirvofandi hættu (NT) og hún er alfriðuð.

Vetrarstöðvar eru á Bretlandseyjum, aðallega á Írlandi. Fáeinir fuglar halda til á Innnesjum yfir veturinn. Varpheimkynni eru víða á norðurhveli en nyrstu varpstöðvarnar eru hér á landi.

Gargandarpar að næra sig á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Gargandarpar við Mývatn.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og um flestar aðrar endur, fjallar íslensk þjóðtrú ekki mikið um gargöndina. Víða eru endur taldar veðurvitar og jafnvel að þær finni á sér eldsumbrot eða jarðhræringar. Þessu tóku menn eftir hjá Mývatnsöndum í Kröflueldum 1975-84.

 

Gargandarpar á Mývatni.

Gargandarsteggur á flugi yfir Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson