Grafandarsteggur í Hafnarfirði.

Grafönd (Anas acuta)

Graföndin er grannvaxin og hálslöng votlendisönd og oftast auðgreind á löguninni. Í fjarlægð virðist karlfuglinn, steggurinn, grár með hvíta bringu og dökkt höfuð. Höfuðið er kaffibrúnt, sem og kverk og afturháls. Framháls, bringa og kviður eru hvít og hvítar rákir á hálshliðum teygja sig upp til höfuðsins. Hann er gráyrjóttur á hliðum, og að ofan á baki, vængþökum og gumpi. Undirgumpur er svartur og stél hvítt og svart með löngum svörtum miðfjöðrum, axlafjaðrir langar og svartar með hvítum jöðrum. Vængspegill er grængljáandi með brúnan framjaðar og hvítan afturjaðar. Í felubúningi síðsumars, þegar hann er ófleygur og í fjaðraskiptum, er steggurinn svipaður kollunni en grárri að ofan. Kvenfuglinn, kollan, er svipuð öðrum buslandakollum en ljósari og grárri, grennri, með lengri háls og oddhvasst stél. Kviður er hvítur og vængspeglar eins og á stegg en brúnni og dauflitari. Kollurnar gefa frá sér djúpt garg, steggirnir lágt blístur, en yfirleitt er fuglinn þögull.

Goggur er blágrár, á stegg með svartan mæni og nögl, og fætur einnig. Augu eru brún.

Flug grafandar er kraftmikið með tíðum vængjatökum, vængir grannir og oddhvassir. Hún flýtur vel á vatni og á auðvelt með gang. Sést venjulega í pörum eða litlum hópum, oft með öðrum buslöndum. Er fremur stygg, hegðar sér líkar rauðhöfða en stokkönd.

Grafandarkolla á flugi í Friðlandi Fuglaverndar í Flóa.

Grafandarpar við Núpa í Ölfusi.

Lífshættir

Graföndin etur fjölbreytt úrval jurtafæðu; fræ, jarðstöngla og rótarhnýði. Tekur jafnframt dýrafæðu í einhverjum mæli og er hún aðalfæða unganna. Hálfkafar eða stingur haus og hálsi undir yfirborð.

Kjörlendi grafandar er blautar flæðimýrar, fen og lífrík vötn og tjarnir með aðliggjandi mýrum. Hún verpur í móum og mýrum, hreiðrið er venjulega opnara en hjá öðrum buslöndum en annars svipað að gerð. Urptin er 7-9 egg, álegan tekur 22-24 daga og ungarnir verða fleygir á 40-50 dögum.

Stofnstærð og útbreiðsla

Grafönd verpur dreift um land allt, en er algengust á Norðurlandi og Úthéraði. Stofnstærðin er talin vera um 500 pör. Þekktir eru nokkrir hausthópar, meðal annars í Öxarfirði og á Úthéraði, allt að nokkur hundruð fuglar hafa sést þar. Á Mývatni hafa sést 70 steggir að vorlagi. Grafönd er alfriðuð og á válista sem fugl í yfirvofandi hættu (NT), aðallega vegna stofnsmæðar hér.

Graföndin er farfugl. Vetrarstöðvar eru víða um vestanverða Evrópu, austan frá Finnlandi og suður til Spánar og Ítalíu, en flestar hafa vetursetu á Bretlandseyjum og frá Bretagne-skaga til Þýskalands. Stöku fuglar sjást flesta vetur á Suðvesturlandi. Graföndin er útbreiddur varpfugl á norðurhveli jarðar.

Grafandarpar á Djúpavogi.

Grafandarhreiður í Biskupstungum.

Þjóðtrú og sagnir

Graföndin hefur ekki skipað sér neinn sérstakan sess í íslenskri þjóðtrú, enda er hún fremur sjaldgæf. Íslensk þjóðtrú fjallar almennt lítið um endur. Þær eru taldar veðurvitar og hér hefur borið við, að þær finni á sér eldsumbrot eða jarðhræringar.

Nær fullvaxnir grafandarungar í Friðlandi Fuglaverndar í Flóa.

Tveir grafandarsteggir að elta kollu á Djúpavogi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson