Gráþröstur (Turdus pilaris)


Gráþrösturinn er líkur skógarþresti en töluvert stærri og stéllengri. Hann er grár á höfði og gumpi, rauðbrúnn á baki og vængjum og gulleitur með dökkum dröfnum á bringu og síðum, ljós á kviði. Stélið er langt og svart. Goggurinn er gulur með dökkan brodd, fætur og augu dökk. Gefur frá sér hrjúft, hvellt og endurtekið „tsjakk“. Söngurinn er hröð runa fremur veikra, ískrandi hljóða.

Gráþröstur grípur til renniflugs með aðfelldum vængjum milli þess sem hann blakar þeim á flugi. Er var um sig og styggur, en getur verið yfirgangssamur og frekur gagnvart öðrum fuglum, sérstaklega þröstum, þar sem honum er gefið. Fuglarnir sjást stakir eða í hópum, bæði stórum og litlum.

Gráþröstur í skurði í Ölfusi.

Lífshættir

Fæða gráþrastar er svipuð og hjá skógarþresti. Hér sækja gráþrestir mest í garða þar sem epli, perur og aðrir ávextir standa til boða, sem og feitmeti, einnig eru ber vinsæl meðan þeirra gætir. Þeir sækja einnig í fjörur og taka þangflugur og fleira.

Gráþröstur gerir sér veglegt hreiður í trjám. Eggin eru 5-6, útungunartíminn er 10-13 dagar og ungarnir verða fleygir á 12-15 dögum. Heldur til í skóglendi, görðum, við bæi og í fjörum.

Gráþrastarhreiður í lerki við Löngumýri í Skagafirði.

Gráþröstur grípur síðasta berið á alaskareyninum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Gráþröstur er hér algengur haust- og vetrargestur. Hefur orpið af og til frá 1950, bæði norðanlands og sunnan. Nú síðast hafa 2-3 pör orpið á árlega á Akureyri, allavega frá árinu 2014. Stofninn hefur hvorki stækka né breiðist út. Varpheimkynni gráþrastar er á breiðu belti frá Skandinavíu og austur um Evrópu og Asíu.

Hvorki hafa myndast sagnir eða þjóðtrú, né ort hefur verið um svo sjaldgæfan fugl, svo kunnugt sé.

Gráþröstur gæðir sér á epli í Garðabæ.

Gráþröstur þenur sig á Selfossi.

Gráþröstur kúrir í vetrarkulda.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson