Gulönd (Mergus merganser)


Gulönd telst til andfuglaættbálksins, auk anda tilheyra honum svanir og gæsir. Þessir fuglar tilheyra síðan allir sömu ættinni, andaætt. Gulönd telst til fiskianda. Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá andfuglum, og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá þá svonefndan felubúning, sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi um haustið, eftir að þeir verða fleygir að nýju.

 

Gulandarsteggur á Elliðaám.

Gulandarkolla á Elliðaám.

Gulandarsteggir á Elliðaám.

Útlit og atferli

Gulöndin er stundum nefnd stóra systir toppandarinnar og er stærsta íslenska ferskvatnsöndin. Fullorðinn steggur virðist í fjarska svartur að ofan en hvítur að neðan. Aðallitur er hvítur með rjómagulum eða laxableikum blæ. Höfuðið er dökkgrængljáandi með úfnar hnakkafjaðrir í stað topps. Bakið er svart og afturendi grár. Í felubúningi líkist hann kollu en er dekkri að ofan og ljósari á síðum. Kollan er með gráan búk og rauðbrúnt höfuð. Einfaldur, stríður hnakkatoppur, hvít kverk og skörp skil á hálsi milli brúna og gráa litarins greina hana frá toppandarkollu, auk stærðarinnar, blágrárri búks og rauðleitara höfuðs. Bæði kyn eru með stóra hvíta vængreiti sem þó eru stærri á steggnum og ekki skiptir eins og á toppönd. Goggur beggja kynja er langur, mjór og rauðlitaður með svarta nögl. Fætur eru einnig rauðleitir og augu brún.

 

 

 

Gulandarpar á flugi við Ölfusá.

Gulandarsteggur á Elliðaám.

Gulandarpar á flugi við Elliðavatn.

Lífshættir

Gulönd er fiskiæta, kafar eftir smásilungi, laxaseiðum og hornsíli. Á sjó tekur hún m.a. marhnút og annan smáfisk. Tekur dýfur þegar hún kafar.

Kjörlendi er við stöðuvötn og straumvötn þar sem fisk er að finna. Hreiðrið er í gjótu eða skúta í klettum eða bökkum, einnig í runnum og lyngi eða jafnvel í gömlum húsum og hrafnshreiðrum. Urptin er 8–11 egg, álegan er 30–35 dagar og ungarnir verða fleygir á nærri 10 vikum. Hún er aðallega inn til landsins á ferskvatni á veturna, þar sem ekki leggur, en einnig á sjó, sérstaklega í frosthörkum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Gulönd verpur um land allt, þar sem búsvæði hennar er að finna og er talin staðfugl. Helstu vetrarstöðvar eru m.a. á opnu vatni á Innnesjum, Suðurlandsundirlendinu, Meðallandi, Landbroti og á Norðausturlandi. Stærsti hópur vetursetufugla er á Mývatni. Meira en helmingur allra gulandarsteggja í Evrópu fella flugfjaðrir í Finnmörku í N-Noregi og er talið að íslenskir steggir eða hluti þeirra felli þar. Íslenski stofninn er talinn vera um 300 pör. Varpheimkynni gulandar er á breiðu belti um allt norðurhvel jarðar.

Gulandarkolla með hálfstálpaðan unga á Mývatni.

Friðun og veiðar

Gulönd er alfriðuð og hefur verið lengi. Hún er samt með alstyggustu fuglum og er auðséð á hegðun hennar, að þar er ekki öllum reglum fylgt. Talið er að hagsmunaðilar í fiskeldi eða ræktun í ám líti á gulöndina sem keppinaut og stuggi við henni. Stofninn er lítill og hæpið að hún geri mikinn skaða.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og um flestar aðrar endur, fjallar íslensk þjóðtrú ekki mikið um gulöndina. Víða eru endur taldar veðurvitar og hér hefur borið við, að þær finni á sér eldsumbrot eða jarðhræringar.

„Styggar“ gulendur á Ölfusá.

Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson