Hringdúfa (Columba palumbus)
Útlit og atferli
Hringdúfa er svipuð bjargdúfu, en stærri, með hvíta bletti á hálshliðum. Hvítur hálfmáni á vængjum er áberandi á flugi. Handflugfjaðrir eru dökkar og dökkt belti á stéli. Er annars gráleit að mestu, en ljósvínrauð að framan. Ungfuglar hafa ekki hálsblettina.
Hún er stærri en bjargdúfa, með hlutfallslega lengra stél og minni haus.
Röddin er dæmigert dúfnahljóð: rhúúú, rhúúú. Vængjasláttur er áberandi þegar fuglinn hefur sig til flugs. Flugið er beint og þróttmikið eins og hjá öðrum dúfum.
Fullorðin hringdúfa á flugi.
Fullorðin hringdúfa.
Lífshættir
Hringdúfa er jurtaæta og nærist helst á jörðu niðri; hún tekur jöfnum höndum græn lauf, sprota, blóm, fræ, ber og rætur. Hringdúfa sækir sérstaklega í kornakra og jafnvel í garða þar sem fuglum er gefið kornmeti. Hún er skógarfugl og verpur bæði í barr- og laufskógum, þó hérlendis haldi hún sig að mestu við greni. Hreiðrið er óvönduð smíð úr kvistum og sprekum, oftast við stofninn í 1,5-2,5 m hæð. Það getur verið erfitt að koma auga á það vegna þess hve vel það fellur að greinum trjánna. Eggin eru tvö, þau klekjast á 16-17 dögum og verða ungarnir fleygir á 28-29 dögum. Varptíminn er teygjanlegur, hringdúfa getur orpið nokkrum sinnum á sumri.
Útbreiðsla og ferðir
Hringdúfa er algengur flækingur að vorlagi og snemmsumars og hefur orpið hér af og til í hálfa öld. Flækist einnig stundum hingað á haustin. Samfara aukinni kornrækt ætti hringdúfan að eiga auðveldara með að koma undir sig fótunum hér, svipað og bjargdúfan.
Fyrsta hringdúfuhreiðrið fannst í Múlakoti í Fljótshlíð 1962. Annað og þriðja hreiðrið voru í klettum í Öræfum 1963-64 og það fjórða í Grasagarðinum í Laugardal 1973. Hreiður og ungar hafa fundist frá Fnjóskadal austur-, suður- og vestur um til Reykjavíkur. Flest varptilvik eru frá Héraði, nágrenni Hafnar í Hornafirði og Tumastöðum í Fljótshlíð. Lítill stofn hefur myndast á Héraði og sennilega víðar, en athuganir skortir.
Varpheimkynni eru samfelld í Evrópu og á blettum í Norður-Afríku og Mið- og Vestur-Asíu. Hún er mjög algeng í nágrannalöndunum og stofnar þar stórir.
Fullorðin hringdúfa á flugi.
Ung hringdúfa.