Landsvala (Hirundo rustica)
og bæjasvala (Delichon urbicum)
Í þessum síðasta þætti um fugl mánaðarins verður í annað sinn vikið frá þeirri venju að fjalla aðeins um eina fuglategund. Þær frænkur landsvala og bæjasvala eru líkar um margt, koma oft saman til landsins og því viðeigandi að fjalla um þær saman. Þær eru spörfuglar og tilheyra hinum eiginlegu svölum, eru alls óskildar hinum smávöxnu sjófuglum sjóvölu og stormsvölu, sem fjallað var um saman í september 2017.
Bæjasvala safnar leðju til hreiðurgerðar í Extremadura á Spáni.
Landsvala á vír í Búlgaríu.
Útlit og atferli
Svölurnar eru báðar algengir vor- og sumargestir og koma þær oft samtímis til landsins. Landsvalan eru þó öllu algengari. Þær eru báðar blásvartar og gljáandi að ofan og á efri hluta höfuðs, landsvala er með svart bringuband, rauð á kverk og í framan. Vængir eru langir og stél djúpklofið með löngum stélfjörðum, stélfjaðrir eru styttri á ungfuglum. Kviður og bringa eru ljósgul.
Bæjasvalan en hvít að neðan. Hvítur gumpur og sýlt stél með styttri stélfjöðrum greina hana frá landsvölu.
Raddir svalanna eru ýmis konar tíst og kvak. Þær fljúga hratt og léttilega og taka smádýr á flugi. Þær svífa gjarnan inn á milli fluglota. Svölurnar tylla sér oft á víra, loftnet og þess háttar. Þær eru félagslindar utan varptíma.
Lífshættir
Landsvala gerir sér oftast hreiður inni í útihúsum og á öðrum mannvirkjum, meðan bæjasvalan gerir sér hreiður undir þakskeggjum eða á syllum utan á húsum. Hreiður beggja er gert úr leðju eða leir, sem fuglarnir taka í gogginn á völdum stöðum, leðjan er oft blönduð stráum. Það er síðan fóðrað með fínum stráum, hárum og fiðri. Hreiður landsvölu er opið meðan hreiður bæjasvölu er hálfkúlulaga með opi efst. Urptin er oftast 4-5 egg, það fer nokkuð eftir stærð hreiðra hversu urptin er stór, getur orðið 7 egg hjá landsvölu. Útungunartíminn er tvær vikur og ungarnir verða fleygir á þremur vikum, jafnvel fjórum vikum eða meira hjá bæjasvölu. Tvö vörp yfir sumarið eru þekkt hjá báðum tegundum.
Nýfleygur landsvöluungi í Extremadura á Spáni.
Landsvala á flugi á Stokkseyri.
:Bæjasvala við hreiður í Vík í Mýrdal.
Bæjasvala á flugi í A-Anglíu á Englandi.
Útbreiðsla og varpsaga
Landsvalan hefur orpið hér alloft. Fuglar sýndu nokkrum sinnum varptilburði, fyrst í Hafnarfirði 1820 svo kunnugt sé, þangað til þeir komu fyrst upp ungum í Gaulverjabæ í Flóa 1911. Síðan eru mörg varptilvik þekkt víða um land og jafnvel tvö ár í röð á sama stað. Bæjasvalan hefur orpið sjaldnar, fyrsta kunna varpið er úr Vestmannaeyjum 1959 og önnur varptilvik hafa öll verið á sunnanverðu landinu. En þær frænkur hafa ekki enn náð hér fótfestu og gæti óstöðugt veðurfar átt sinn þátt í því.
Landsvala verpur í Evrópu, Norður-Afríku, Asíu og Norður-Ameríku, vetrarstöðvar evrópskra fugla eru í sunnanverðri Afríku. Bæjasvala verpur um alla Evrópu, Norður-Afríku og austur um Asíu. Vetrarstöðvar evrópskra fugla eru í Afríku sunnan Sahara.
Þetta er síðasti pistillinn um fugl mánaðarins. Fjallað var um helstu fugla íslensku fánunnar, pistlarnir eru nú orðnir rúmlega 90 og hafa verið birtir mánaðarlega í næstum 8 ár. Lesendum eru þökkuð góð viðbrögð við þeim og Náttúruminjasafninu samstarfið.
Bæjasvölupar á góðri stundu í Extremadura á Spáni.
Bæjasvöluvarp í Extremadura á Spáni.
Landsvala á varpstað á Stapa í Nesjum.
Landsvölur á Stokkseyri.
Landsvala á hreiðri í Coto Doñana á Spáni.
Landsvölur í rigningu við Þvottá í Álftafirði.