Maríuerla (Motacilla alba)


Útlit og atferli

Maríuerlan er lítill og kvikur spörfugl með langt stél sem hún veifar í sífellu. Fullorðin maríuerla er grá á baki og gumpi; kollur, kverk og bringa eru svört, enni og vangar hvít. Bringan er hvít, sem og ytri stélfjaðrir, vængir og miðhluti stéls dökk. Karlfugl er dekkri en kvenfugl. Ungfugl er móbrúnn á höfði með svartan díl á bringu.

Goggur er grannur, stuttur og svartur, fætur svartir og augu dökk. Maríuerla er af erluætt eins og þúfutittlingur.

Flug maríuerlunnar er bylgjótt. Sitjandi sveiflar hún löngu stélinu upp og niður í sífellu og kinkar kolli. Hún veiðir flugur á flugi eða á jörðu niðri, hleypur hratt. Maríuerlur eru venjulega stakar eða í litlum hópum.

Gefur frá sér fjörlegt og hvellt hljóð, síendurtekið.

Maríuerla fóðrar fullvaxinn unga í Suðurnesi á Seltjarnarnesi.

Maríuerluhreiður með nýklöktum ungum á Fljótshólum í Flóa.

Lífshættir

Maríuerlan er dýraæta, tekur einkum fiðrildi, bjöllur og tvívængjur. Hún veiðir bæði fljúgandi dýr og tínir þau upp af jörðinni, með kvikum hreyfingum og stuttum sprettum. Þekkt er það atferli maríuerlu að tína dauð skordýr af grillum og stuðurum bíla. Verpur á sveitabæjum, í þéttbýli, klettum við sjó, við vötn og ár og víðar á láglendi. Hreiðrið er karfa í holu eða gjótu, hlöðnum vegg, á sperru eða undir þakskeggi, í varpkassa, undir brú eða jafnvel í grenitré. Urptin er 5-6 egg, álegan tekur 13 daga og verða ungarnir fleygir á um tveimur vikum. Utan varptíma er hún oft í fjörum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Maríuerlan er alger farfugl. Stofnstærðin er talin vera 20.000-40.000 varppör og hún er ekki á válista. Hún flýgur til Vestur-Afríku á haustin. Varpheimkynni hennar eru um mestalla Evrópu og Asíu.

Maríuerla ber æti í unga við Jökulsá á Breiðamerkursandi.

Maríuerla í vetrarbúningi á Eyrarbakka.

Þjóðtrú og sagnir

Maríuerlan skipar stóran sess í hugum landsmanna og fylgir henni ýmiss konar þjóðtrú. Meðal annars sagði hún til um vorkomu og var vísir á skipakomur á vorin, því hún átti að koma siglandi yfir hafið. Hún spáði fyrir um dvöl manna. Maríuerla átti ekki að geta orpið fyrr en hún setti hár af hreinni mey í hreiðrið. Margir líkamshlutar hennar nýttust í galdra eða annað kukl. Í maga hennar er gæfusteinn. Í heiðni var hún kennd við gyðjuna Frigg, friggjarerla eða -elda. Mörg skáld hafa mært maríuerluna í ljóðum.

Ég bið að heilsa!

Bragurinn fer að batna nú hjá bræðrum erlu,
þeir dansa, hvísla, krymta og kvirla,
kæti sínum fóstra byrla.

úr Fuglavísum eftir Eggert Ólafsson

 

Máríuerla

Sendir drottins móðir, Maríá,
mildar gjafir himni sínum frá.
Flaug úr hennar hendi vorsins perla,
heilög dúfa, lítil maríuerla.

Létt á flugi, kvik og fjaðurfín
flýgur hún um auðan geim til þín.
Í veggnum þínum vill hún hreiður búa,
varnarlaus á þína miskunn trúa.

Dável svarta húfan henni fer,
hneigir kolli ákaft fyrir þér.
Strá úr veðurbörðu, bleiku sefi
ber hún eins og friðargrein í nefi.

Grætur drottins móðir hrelld og hljóð,
hendur mannsins flekkar dauðablóð.
Fuglahjörðin, felld af grimmu valdi,
flögrar særð að hennar kyrtilfaldi.

Græðir hún á sinni skýjasæng
særðan fót og lítinn, brotinn væng.
Djúpt í hjarta sorgarundir svíða,
saklaus áður þannig mátti líða.

Sérhvert vor um varpa og bæjarhól
vappar söngvin erla á gráum kjól,
flögrar eins og bæn um geiminn bláa,
bæn fyrir hinum varnarlausa smáa.

Guðfinna Jónsdóttir frá Hömrum

 

 

Maríuerla ber æti í unga að Hofi í Öræfum.

Maríuerla í Mývatnssveit. Maríuerla á fyrsta hausti á Eyrarbakka.

Maríuerla baðar sig á Stokkseyrarbryggju.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson