Sanderla (Calidris alba)


Útlit og atferli

Sanderla er lítill, kvikur og ljósleitur vaðfugl. Í sumarfiðri, sem hún fær þegar vel er liðið á vorið, er sanderlan rauðbrún á höfði, hálsi og bringu, á baki eru fjaðrirnar ljós- og dökkjaðraðar. Vængþökur eru gráar, bringa og kviður hvít. Vetrarbúningurinn er mjög ljós, fuglinn er þá hvítur á höfði, hálsi og að neðan, grár á kolli og að ofan. Hvít vængbelti eru áberandi og dökkur framjaðar vængja áberandi á flugi. Gumpur og stél eru grá með hvítum jöðrum. Svartur goggur er stuttur og beinn. Fætur eru svartir og augu dökkbrún.

Sanderlan er svipuð lóuþræl í vetrarfiðri, en ljósari, ögn stærri og þreknari, með styttri gogg. Hún er mjög kvik og á sífelldu iði. Hún er félagslynd og sést hér oftast í litlum hópum. Sanderla gefur frá sér stutt og hvellt hljóð.

Sanderlur að hausti á Eyrarbakka.

Sanderla að vori á Eyrarbakka.

Lífshættir

Sanderla leitar oftast ætis með því að hlaupa til og frá í sandfjörum, elta öldusogið og tína úr því fæðuna, sem eru burstaormar, samlokur, marflær og skordýr.

Kjörlendi sanderlu er sandfjörur og leirur.

Sanderla í vorbúningi á Eyrarbakka.

Sanderlur og tildra á flugi að vori á Eyrarbakka.

Útbreiðsla, stofnstærð og ferðir

Sanderlan er svonefndur umferðarfarfugl eða fargestur hér á landi. Helstu viðkomustaðir hér eru frá Rosmhvalanesi norður eftir Faxaflóa, norður á Löngufjörur, við Breiðafjörð, eitthvað á Vestfjörðum, á Melrakkasléttu, við Djúpavog og á Eyrum. Fáeinar sanderlur sjást stundum utan fartíma. Grænlenskir fuglar, sem hafa vetursetu á Atlantshafsströnd Evrópu og Afríku allt suður til Namibíu, fara hér um vor og haust, einkum Vesturland eins og fyrr er sagt og í auknum mæli að því er virðist um Melrakkasléttu í seinni tíð. Þessi stofn var metinn um 120 þúsund fuglar milli 1990 og 2000, en nú um 200 þúsund fuglar enda hefur þeim fjölgað um 4% á ári um skeið. Hæstu tölur sem þekktar eru héðan eru 8000 fuglar, en fuglarnir stoppa stutt og er umsetning mikil. Hugsanlegt er að fuglar sem verpa í NA-Kanada fari hér eitthvað um, því sumir þeirra virðast notað A-Atlantshafsfarleiðina. Auk Grænlands og nyrstu eyja Kanada verpur sanderlan í Síberíu og lítið eitt á Svalbarða og nyrst í Alaska..

Engin þjóðtrú fylgir sanderlunni hér á landi.

Sanderla í fullum sumarskrúða á Eyrarbakka.

Ung sanderla í Sandgerði.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson