Skógarsnípa (Scolopax rusticola)
Skógarsnípan er eins og ofvaxinn hrossagaukur, hún er skyld honum og svipuð að lit, en er stærri (3x þyngri) og þreknari með breiða vængi. Fjaðurhamurinn er brúnleitur og felulitur, ætlaður til að dyljast í laufi skógarbotna. Bakið er ryðrautt með gráum flekkjum, litamynstur svipar til hrossagauks, hún er þétt þverrákótt að neðan, með breiðum svörtum þverrákum aftan á höfði og hálsi. Ungfuglar eru svipaðir.
Goggur skógarsnípu er gildvaxinn, brúnleitur eða bleiklitur, með dekkri brodd. Fætur eru blágráir eða grábrúnir. Augu eru stór og sitja aftarlega á hnöttóttu höfðinu, lithimna dökkbrún. Sjónsvið hennar er mög vítt og hún sér því bæði framfyrir sig og aftur.
Söngflug skógarsnípu er sérstakt, hún flýgur í hringi yfir trjátoppum með sérkennilegum ískrandi hljóðum kvölds og morgna. Hún er áberandi gildvaxinn á flugi, virðist hálslaus, goggur veit niður. Hefur þá verið líkt við fljúgandi sláturkepp. Skógarsnípa er rökkurfugl, sem dylst á daginn í þéttum gróðri, lætur sig falla fljótt til jarðar aftur, eftir að hafa verið fæld upp.
Á söngflugi gefur karlfuglinn frá sér rámt og marrandi, þrítekið rýt, sem endar á háu tísti. Þessum söng hefur verið lýst sem hljóði í ryðguðum hjólbörum. Tístið heyrist venjulega betur.
Skógarsnípukarl á rökkurflugi í Langadal.
Skógarsnípa í Ölfusi.
Lífshættir
Skógarsnípa verpur í skóglendi með ríkulegum undirgróðri, einkum þar sem völ er á einhverju votlendi. Eggin eru oftast fjögur, útungunin tekur um 3 vikur og ungarnir verða fleygir á 15-20 dögum, nokkru áður en þeir ná fullum vexti. Lítið er vitað um varphætti skógarsnípunnar hér á landi. Ýmislegt bendir til að hún geti orpið tvisvar á sumri, líkt og hrossagaukurinn. Vetursetufuglar finnast í opnum skurðum, dýjaveitum og á jarðhitasvæðum, oftast þar sem einhver trjágróður vex.
Útbreiðsla og stofnstærð
Hefur nýlega fengið stöðuna reglulegur varpfugl, þó að margt bendi til að skógarsnípa hafi orpið hér síðan um 1970. En vegna hins felugjarna háttalags, hefur verið erfitt að sannreyna varp og aðeins örfá hreiður fundist eða ungar sést. Fyrsta staðfesta varpið er frá 2004, en upplýsingar um óstaðfesta hreiður- eða ungafundi ná mun lengra aftur.
Syngjandi karlfuglar á vor- og sumarkvöldum eru besta sönnun fyrir varpi skógarsnípu. Karlarnir hafa sést víða um land, bæði í ræktuðum skógi og birkikjarri, en skortur á athugunum valda gloppum í sumum landshlutum. Stofninn er talinn vera fáeinir tugir para. Ekki er vitað hvort varpfuglarnir séu farfuglar eða hvort vetursetufuglarnir sem hér sjást séu staðfuglar. Vetursetufuglar sjást víða um land. Skógarsnípa er algengur varpfugl í skógum Evrópu austur eftir Asíu, alla leið til Japan, sérstaklega þar sem votlendi er að finna. Hún er víðast farfugl, t.d. í Skandinavíu, en er þó staðfugl á Bretlandseyjum og í Vestur-Evrópu. Hér hefur ekki myndast nein þjóðtrú um skógarsnípuna, en í nágrannalöndunum fylgir henni margvísleg þjóðtrú, tengd veðri, göldrum og fleiru.
Skógarsnípa í Ölfusi.
Skógarsnípa og „litli frændi“, hrossagaukur saman í opnum læk í Ölfusi.
Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson