Rauðbrystingur á Barðaströnd

Skógarþröstur (Turdus iliacus)

Þessi söngfagri spörfugl er einkennisfugl íslenskra birkiskóga og garða í þéttbýli. Hann er meðalstór af spörfugli að vera, dökkmóbrúnn að ofan, hvítur eða ljósgulur að neðan. Bringa hans er alsett þéttum, dökkum langrákum, kviðurinn er minna rákóttur. Ljós, breið brúnarák og skeggrák, ásamt rauðbrúnum síðum og undirvængþökum, greina hann frá öðrum þröstum. Ungfugl síðsumars eru ljósari með ljósa fjaðrajaðra að ofan. Goggur er fremur sterklegur spörfuglsgoggur, gulleitur með dökkan brodd og mæni. Fætur eru ljósbrúnir og augu dökkbrún.

Um leið og skógarþrösturinn kemur til landsins á vorin byrjar karlinn að syngja og helga sér svæði. Fuglinn er félagslyndur utan varptíma og fer þá um í hópum. Hann hoppar oftast jafnfætis á jörðu niðri. Um varptímann einkennir ómþýður söngur skógarþröstinn og stundum syngur hann angurvært á haustin og veturna. Gefur auk þess frá sér hart og hvellt kallhljóð

Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.

Syngjandi skógarþröstur í Mývatnssveit.

Ungur rauðbrystingur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur með fullvaxinn unga (t.v.) í Fossvogskirkjugarði.

.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Syngjandi skógarþröstur í Njarðvíkum. Toppurinn er athyglisverður.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur ýfir sig til að halda á sér hita í vetrarkulda. Árbæjarhverfi í Ölfusi.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Nýkomnir skógarþrestir í vorhreti í Eyrarbakkafjöru.

Lífshættir

Skógarþrösturinn er bæði dýra- og jurtaæta, hann étur skordýr, áttfætlur, orma og bobba á sumrin og fæðir ungana á þeim. Síðsumars leggjast þrestirnir í berjamó og sækja síðan í reyniber og önnur ber í görðum. Fyrir vetrarfuglana er gott að leggja út epli, perur, fitu og kjötsag.

Skógarþröstur verpir í alls konar skóglendi á láglendi. Mesti þéttleikinn er í birkiskógi með ríkulegum undirgróðri, í görðum og ræktuðum skógi. Hreiðrið er karfa, ofin á undirstöðu úr leir, tágum og stönglum, staðsett í tré, gjarnan barrtré í þéttbýli, á jörðu niðri í kjarri, í skurðbökkum og á byggingum. Eggin (urptin) eru 4–6, þau klekjast á 12–13 dögum og ungarnir verða fleygir á 13–14 dögum. Ungarnir yfirgefa oft hreiðrin áður en þeir verða fleygir og mikil hætta er á að þeir lendi í kattarklóm þegar þeir verpa í húsagörðum. Það er enn í eðli unganna að hreiðrið sé á jörðu niðri eins og tíðkast hefur um aldir í íslenska birkikjarrinu. Skógarþrösturinn verpur iðulega tvisvar til þrisvar á sumri. Sést víða á fartíma, t.d. í fjörum og skógum.

Síðan um aldamót hefur frændi hans, svartþrösturinn, numið land og er hann að mestu leyti þéttbýlisfugl. Þeim frændum virðist koma vel saman þó að stundum slái í brýnu, enda eru þrestir einstaklingshyggjufuglar og eiga oft erfitt með að una öðrum fuglum að nýta sama svæði og þeir. Það getur kveðið svo rammt að vörnum skógarþrasta við hreiður, að þeir ráðast á fólk sem hættir sér of nærri og dæmi er um garðeigendur sem hafa ekki vogað sér út á meðan þrösturinn undirokar garðinn.

 

Útbreiðsla og stofnstærð

Skógarþrösturinn verpur á láglendi um land allt, um 99% stofnsins er talinn verpa neðan 300 m hæðarlínunnar. Hann er að mestu farfugl og fer til Vestur-Evrópu á haustin, mest til Bretlands, Írlands, Frakklands og Pýreneaskaga. Nokkur þúsund þreyja hér þorrann og góuna í þéttbýli. Varpheimkynni eru í norðanverðri Evrópu og Asíu. Íslenski skógarþrösturinn er sérstök undirtegund, Turdus iliacus coburni. Stofninn er talinn vera um 165.000 varppör. Hauststofninn er því væntanlega á bilinu 400.000–500.000 fuglar.

Þjóðtrú og sagnir

Skógarþrösturinn er veðurspáfugl. Þegar þrestir koma heim á bæi í góðu veðri, haust eða vor, er von á vondum veðrum. Sumir segja það merki um stórhríð í vændum ef þrestir koma heim að bæjum að haust- eða vorlagi. Talið er að álög meini þrestinum vetrarvist.

Ég bið að heilsa!

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!

Heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.

Jónas Hallgrímsson

 

Vorið góða

Vorið góða, grænt og hlýtt,
græðir fjör um dalinn,
allt er nú sem orðið nýtt,
ærnar, kýr og smalinn.

Kveður í runni, kvakar í mó
kvikur þrastasöngur;
eins mig fýsir alltaf þó:
aftur að fara’ í göngur.

Jónas Hallgrímsson

 

Nú haustar að

Einhverja nóttina koma skógarþrestirnir
að tína reyniber af trjánum
áður en þeir leggja í langferðina yfir hafið,
en það eru ekki þeir sem koma með haustið
það gera lítil börn með skólatöskur.

Vilborg Dagbjartsdóttir

 

Þrastarhreiðrið

Ég veit um lítið leyndarmál
Í lágu, fögru tré.
Í gengum ljósgrænt limið þess
ég lítinn bústað sé.

Ég á mér ljúfan, lítinn vin
er ljóð um ástir söng.
Við gluggann minn hann kvað oft kátt
um kvöldin björt og löng.

Með hagleik sá ég húsið reist
og hoppað grein af grein
og stráin fest þar eitt og eitt
en aldrei mistök nein.

Það varð að hafa hraðan á,
í húfi mikið var.
Og bólið þurfti að vanda vel
allt vott um kærleik bar.

Svo komu eggin ofursmá,
þau urðu að lokum sex.
Og móðurástin annast þau
hún eykst og stöðugt vex.

Þótt úti vorið andi svalt
sinn yl hún gefur þeim,
sem kominn er um langa leið
til landsins kalda heim.

Ég gægist út um gluggann minn
það gleður hug og sál
að horfa á grænt og gróið tré
sem geymir leyndarmál.

Margrét Jónsdóttir

Hópur rauðbrystinga í Flóa.

Skógarþrastarhreiður í Laxárdal í S-Þingeyjarsýslu.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur á hreiðri í birki í Kjarnaskógi.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur að gefa ungum í Lambhagahverfi í Reykjavík.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþrestir eigast við í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur baðar sig á Húsavík.

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson