Skrofa (Puffinus puffinus)


Skrofa er meðalstór, rennilegur og grannvaxinn sjófugl. Hún er svört að ofan og hvít að neðan með langa og mjóa vængi og afar flugfim. Hvíti liturinn að neðan er bryddur svörtu og vængbroddar og stéljaðrar eru dökkir. Stélið er stutt. Ungfugl er eins og fullorðinn og kynin eru eins. Skrofa er af fýlingaætt og ættbálki pípunasa, eins og fýll, sæsvölur, albatrosar og fleiri sjófuglar. Goggur er mjór, dökkur, krókboginn í endann með stuttum nasapípum. Fætur eru bleikir með grábláum yrjum, augu dökkbrún.

Skrofur eru oftast í hópum. Þær koma aðeins í byggðirnar að næturlagi en safnast í stóra hópa nærri þeim síðdegis. Skrofan flýgur lágt yfir haffleti og veltir sér á fluginu, svo til að sjá eru hóparnir annaðhvort svartir eða hvítir. Á sundi minnir hún á svartfugl en er léttsyndari. Eltir sjaldan skip. Skrofan er þögul, nema á varpstöðvum heyrast ýmiss konar óp, skrækir og vein. Hægt er að kyngreina fugla á hljóðunum.

Skrofa á flugi á Flóanum, Vestmannaeyjum.

Skrofur á sundi á Flóanum, Vestmannaeyjum.

Skrofur á flugi við Elliðaey, Vestmannaeyjum.

Skrofur að hefja sig til flugs á Flóanum, Vestmannaeyjum. Þær þurfa að hlaupa á vatninu til að ná flugi.

Lífshættir

Skrofur leita ætis í hópum. Skrofan tekur fisk (t.d. sandsíli og síld), átu (krabbadýr) og smokkfisk, kafar grunnt frá yfirborði eða stingur sér úr lítilli hæð.

Skrofan er úthafsfugl sem kemur ekki á land nema til að verpa. Verpur í þéttum byggðum á grasi vöxnum eyjum og höfðum. Gerir sér hreiður í holu sem hún grefur í svörð, oft innan um lunda. Eggið er aðeins eitt og útungunar- og ungatími er langur og skiptast foreldrarnir á: álegan tekur rúmar 7 vikur og unginn er í hreiðri í 10 vikur, aðalflugtími hans er í fyrri hluta september.

Skrofur á flugi á Flóanum, Vestmannaeyjum.

„Vatnsskerinn frá Mön“, skrofa á flugi við Elliðaey.

Útbreiðsla og stofnstærð

Skrofan verpur í Vestmannaeyjum, stærsta varpið er í Heimakletti, en hún er einnig í öðrum grónum eyjum. Þetta eru nyrstu varpstöðvar hennar í heiminum. Skrofunni virðist hafa fækkað vegna fæðuskorts á síðustu árin, eins og flestum öðrum sjófuglum. Sést víða við Suður- og Suðvesturland frá vori fram á haust. Einhver besti staður til að skoða skrofur á meginlandinu er í Garði, oftlega er skrofuhópur skammt norðan við höfnina og svo sjást þær á flugi við Garðsskaga. Skrofan er langlíf eins og aðrir pípunasar, Íslandsmetið á fugl sem höfundur þessa pistils merkti á hreiðri í Ystakletti 10. júní 1991, þá að minnsta kosti 6 ára gömul. Hún er enn að, fannst á hreiðri í klettinum í júní 2021.

Skrofa er á válista sem tegund í nokkurri hættu (VU). Henni virðist hafa fækkað frá því að stofninn var fyrst metinn 1991 og er hann nú talinn vera 3000-5000 pör.

Höfuðstöðvar skrofunnar eru á Bretlandseyjum en hún hefur nýlega numið land vestanhafs á Nýfundnalandi. Verpur auk þess í Færeyjum, lítils háttar á eyjum við Bretagne í Frakklandi, á Azoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum. Vetrarstöðvar íslenskra skrofa eru við strendur Suður-Ameríku allt suður til Argentínu og Eldlands. Fuglarnir fljúga hring um Atlantshafið á þessum ferðum sínum. Íslenskar skrofur geta leitað allt til Biskajaflóa eftir æti á varptíma.

Skrofa á flugi við Elliðaey, Vestmannaeyjum.

Skrofur á flugi við Elliðaey, Vestmannaeyjum.

Þjóðtrú og sagnir

Á ensku er skrofan kennd við eyna Mön: Manx Shearwater, sem þýðir „vatnsskerinn frá Mön“. Þar og víðar á varpstöðvum hennar í Evrópu er hún tengd hinu illa og stafar það af hljóðunum, sem hún gefur frá sér í vörpunum að næturlagi, þau geta verið ískyggileg þegar skrofan flýgur framhjá í myrkrinu. Fólk átti erfitt með að heimafæra þau uppá nokkra dauðlega veru. Þýskumælandi sæfarendur hafa gjarnan nefnt tegundina djöflafugl (Teufelsvogel) sökum hljóðanna. Engin þjóðtrú virðist hafa skapast hérlendis, á varpstöðvunum í Eyjum, kannski vegna hinna björtu sumarnótta hér á norðurmörkum útbreiðslu skrofunnar?

Skrofa í Ystakletti, Vestmannaeyjum.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson