Skúfönd (Aythya fuligula)


Útlit og atferli

Skúföndin er fremur lítil og nett önd og er algengasta kaföndin á láglendi. Hún er mjög dökk, steggurinn er með svart, blágljáandi, hnöttótt höfuð með lafandi hnakkaskúf. Síður eru hvítar, svo og kviður, undirvængir og vængbelti, fjaðurhamur annars svartur eða brúnsvartur. Í felubúningi er hann grár á síðum með stuttan skúf, að öðru leyti eins og í skrautbúningi. Á fyrsta vetri eru síður brúnflikróttar. Kollan er dökkbrún að ofan, með ljósflikróttar síður, hvítan kvið og vængbelti. Flestar hafa hvítan blett við goggrót og ljósan undirgump sem dökknar á sumrin. Á þeim vottar fyrir hnakkaskúfi. Ungfuglar eru dekkri en kollurnar. Skúfönd svipar til duggandar en er grennri, með annað höfuðlag, styttri háls og dekkri búning.

Bæði kyn hafa blágráan eða dökkgráan gogg með svartri nögl, fætur eru blágráir með dekkri fitjum. Fullorðnir fuglar eru með heiðgul augu, ungfuglar brún.

Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá þá svonefndan felubúning, sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi um haustið, eftir að þeir verða fleygir að nýju.

Skúfönd er félagslynd á öllum árstímum. Hún flýgur hratt með hröðum vængjatökum, er djúpsynd og fimur kafari en þung til flugs og hleypur á vatni í flugtaki eins og aðrar kafendur. Sést sjaldan á landi.

Skúfönd er fremur þögul, steggurinn gefur frá sér þýtt blísturshljóð en kollan urrandi garg.

 

Skúfandarsteggir í felli (felubúningi).

.

Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.

Skúfandarhópur við Mývatn.

Ungur rauðbrystingur í Eyrarbakkafjöru.

Skúfandarsteggur hefur sig til flugs á Mývatni.

.

Lífshættir

Skúfönd er dýraæta sem kafar til botns eftir smádýrum, t.d. mýlirfum, krabbadýrum, vatnabobbum og ertuskeljum. Þörungar og hornsíli eru í litlum mæli á matseðli skúfandar.

Kjörlendi á sumrin er lífauðug, grunn vötn og tjarnir. Skúfönd verpur oft í dreifðum byggðum, gjarnan innan um hettumáf og kríu. Hreiðrið er vel falið í þéttum gróðri nærri vatni, fóðrað með sinu og dúni. Eggin eru 8–11, stundum verpa fleiri en ein kolla í sama hreiður og geta þau þá orðið mun fleiri, ég hef fundið skúfandarhreiður með 24 eggjum!!! Eggin klekjast á 25 dögum og ungarnir verða fleygir á 45-50 dögum. Heldur sig á vetrum mest á opnu ferskvatni, en einnig á sjó.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skúfandarhreiður við Reykjavíkurtjörn.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skúfandarkolla með 11 unga á Reykjavíkurtjörn.

Útbreiðsla og stofnstærð

Skúföndin er að mestu farfugl. Hún er láglendisfugl, en sést sjaldan á hálendinu. Hún nam hér land í lok 19. aldar. Skúfönd er nú sennilega algengasta kaföndin að æðarfugli undanskildum og hefur slegið duggöndinni við sem algengasta öndin á Mývatni. Stofninn er talinn vera 10.000–12.000 varppör og verpur rúmlega helmingurinn við Mývatn. Skúfönd er aðallega á Írlandi á vetrum en einnig mikið á Bretlandi og ungfuglar leggja nokkuð leið sína til Vestur-Evrópu suður til Spánar og jafnvel allt til Marokkó, sumir fara jafnvel vestur um haf. Allt að 500–1000 fuglar halda til á Suðvestur- og Suðurlandi og Mývatni á veturna. Varpstöðvar skúfandar eru í Evrópu og Asíu, allt austur að Kyrrahafi.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og um flestar aðrar endur, fjallar íslensk þjóðtrú ekki mikið um skúföndina. Víða eru endur taldar veðurvitar og jafnvel að þær finni á sér eldsumbrot eða jarðhræringar. Þessu tóku menn eftir hjá Mývatnsöndum í Kröflueldum 1975–84.

Skyldar tegundir

Hringönd (Aythya collaris) er árviss flækingur hér á landi og sést oftast með skúföndum og para þær sig stundum. Blendingarnir minna meira á hringönd en skúfönd. Oft er um að ræða steggi sem sjást ár eftir ár á sömu slóðum, oftast á SV- og SA-landi og við Mývatn. Hringönd minnir á skúfönd, steggurinn er með svart bak, ljósgráar síður sem enda í hvítri totu aftan við svarta bringu. Kollur er fiðurmikill, án skúfs og enni bratt. Kollan er með hvítan augnhring og hvíta rák aftur frá auga, minnir annars á skúfandarkollu. Bæði kyn með grátt vængbelti. Goggur beggja er gott einkenni, bæði eru með áberandi ljósan hring innan við svarta nögl, steggurinn jafnframt með annan hring uppvið goggrót. Hringöndin er útbreiddur varpfugl um norðanverða N-Ameríku.

Hópur rauðbrystinga í Flóa.

Hringandarsteggur á Elliðavatni.

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson