Skúmur (Stercorarius skua)


Skúmur er af kjóaætt og af ættbálki strandfugla, eins og vaðfuglar, máfar, þernur, svartfuglar o.fl. Þrír nánir ættingjar hans halda sig hér eða sjást reglulega, kjói er varpfugl, fjallkjói er umferðarfugl og sjaldgæfur varpfugl og ískjói er umferðarfugl eða fargestur.

 

Útlit og atferli

Skúmur er einkennisfugl hinna miklu sanda sunnan- og suðaustanlands. Honum svipar til kjóa en er þó mun stærri og þreknari, minnir á stóran, dökkan, hálsstuttan máf. Kvenfugl er sjónarmun stærri en karlfugl. Skúmurinn er dökkbrúnn með ljósbryddum fjöðrum á höfði, hálsi, bringu og baki. Ljósir blettir framarlega á væng eru einkennandi á þöndum vængjum. Vængirnir eru breiðir og snubbóttir, stélið stutt og breitt, miðfjaðrir lítið eitt lengri. Ungfuglar eru dökkbrúnir og jafnlitir. Goggurinn er svartur og sterklegur, krókboginn fremst, fæturnir sterklegir og svartir og augun einnig svört.

Skúmurinn gefur frá sér gargandi kokhljóð eða hrjúft nefhljóð á varpstöðvum.

Skúmurinn er mjög kröftugur flugfugl og ótrúlega fimur þrátt fyrir þyngslalegan vöxt. Hann er árásargjarn við hreiður sitt og hikar ekki við að ráðast að fólki. Eitt af sérkennum skúms er að þegar hann lendir lyftir hann vængjunum og eru hvítu vængblettirnir þá áberandi. Jafnframt eru vænglyftur með opnum goggi merki um árásarhneigð. Skúmur er félagslyndur á varpstöðvum en fer oft einförum utan þeirra.

Skúmapar með unga í Ingólfshöfða.

Skúmshreiður á Skógasandi.

Lífshættir

Sandsíli er líklega aðalfæða skúms, en hann lifir annars á fjölbreyttri fæðu úr dýraríkinu. Hann er þekktur fyrir að leggja aðra sjófugla í einelti, svo sem fýla, svartfugla, máfa og jafnvel súlur, og þvinga þá til að sleppa eða æla æti sínu. Hann drepur einnig aðra fugla sér til matar, bæði fullorðna og unga, og fer einnig í fiskúrgang.

Skúmur verpur aðallega í dreifðum byggðum á sjávarmelum og grónum aurum jökuláa, en stundum í höfðum og eyjum. Hreiðrið er dæld í jörðina, oft án hreiðurefna. Eggin eru tvö, álegan tekur um fjórar vikur og ungarnir verða fleygir á 6–7 vikum.

Ógnandi skúmur í Öræfum.

Skúmurinn í ríki sínu, Öræfajökull fjær.

Útbreiðsla, stofnstærð og staða á válista

Skúmur er farfugl. Um ¾ hlutar stofnsins verpa á Skeiðarársandi, í Öræfum og á Breiðamerkursandi. Slæðingur verpur utan hefðbundinnar útbreiðslu, aðallega á NA-verðu landinu. Engin heildartalning hefur verið gerð á skúmastofninum síðan 1984–1985. Þá var stærð stofnsins metin 5400 pör. En síðan hefur skúmi fækkað mikið í langflestum byggðum og er hann nú á válista sem tegund í bráðri hættu (CR: Critically endangered), sem er efsti hættuflokkur sem lífvera nær, fyrir utan að vera útdauð. Þó eru til menn sem stugga við skúmnum, þar sem hann er að reyna að nema land á nýjum stöðum.

Skúmurinn er úthafsfugl utan varptíma og heldur sig á veturna á Norður-Atlantshafi suður að miðbaug. Utan Íslands verpur hann aðallega á skosku eyjunum, en einnig í Færeyjum, Noregi, Rússlandi og norrænum eyjum eins og Bjarnarey, Svalbarða, Jan Mayen og austur til Novaja Zemlya. Þrjár náskyldar tegundir verpa á suðurhveli jarðar og er talið að norðurhvelsskúmurinn sé upprunninn þar.

Þjóðtrú og sagnir

Lítil þjóðtrú fylgir skúminum. Hann átti að vísa á fisk, eins og gjarnt er um sjófugla, sérstaklega þótti hákarlaveiðimönnum lán af návist skúms.

Séð hef ég köttinn syngja á bók,
selinn spinna hör á rokk,
skötuna elta skinn í brók,.
skúminn prjóna smábandssokk.

Kunn öfugmælasvísa

Fullvaxinn skúmsungi í Ingólfshöfða.

Skúmur ógnar ljósmyndaranum í Öræfum.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson